Við höfum fengið nokkrar fyrirspurnir um það hvað felst í því að fjarlægja brunna.
Hluti af hönnun hitaveitunnar í árdaga hennar voru svonefndir hitaveitubrunnar sem eru steinsteypt jarðhýsi þar sem ýmsar tengingar lagna koma saman, þenslustykki, kranar o.fl. Með breyttri tækni og efni eru þessir brunnar orðnir úreltir og langtímaáætlanir gera ráð fyrir því að þeir verði allir lagðir af. Smátt og smátt er því unnið að því að fjarlægja þá úr dreifikerfi hitaveitunnar. Eins og fram hefur komið í fréttum er verið að taka þrjá slíka brunna burt úr Miðbæ Akureyrar. Eins og sjá má þá eru brunnarnir afar óheppileg vinnusvæði og það hefur sýnt sig að samsetningar í þeim geta verið afar viðkvæmar fyrir tímans tönn ekki síst ef vatn kemst ofan í brunnana.
Hér fyrir neðan má sjá myndir af því þegar brunnur í Vestursíðu var tekinn - myndirnar segja meira en mörg orð um framgang svona verka.
Mokað frá brunninum og hann sagaður í sundur lárétt |
Efri hluti brunnsins hífður af |
Efri hlutinn keyrður burtu og honum fargað |
Hér sjást síðan tengingar sem taka þarf burtu |
Nýjar tengingar, kranar og dæla |
Fyllt í neðri hluta af brunninum með möl/sandi. Héðan í frá þarf starfsfólk ekki að fara ofan í hættulegan brunninn til að skrúfa fyrir krana komi upp bilanir á aðliggjandi lögnum, tengja þurfi ný hús inn á þær o.s.frv. |
Skurðinum lokað og unnið að loka frágangi yfirborðs. |
Opnunartími Norðurorku
Opið virka daga kl. 8-12 og 13-15