Norðurorka vill ítreka tilmæli til viðskiptavina sinna um að fara sparlega með kalda vatnið.
Eins og fram hefur komið þá fór vatn í miðlunargeymum vatnsveitunnar niður fyrir öryggismörk í gær. Í gærkvöldi og í morgun hefur verið farið yfir mælingar og notkunarminnstur og ljóst að það er fyrst og fremst mjög mikil notkun bæjarbúa sem veldur því að vatn í geymunum fór niður fyrir öryggismörk. Við skoðun á mælum Hafnarsamlags Norðurlands hefur komið í ljós að stóru skemmtiferðaskipin eru ekki afgerandi þáttur í þessum stóra toppi í gær enda tóku þau ekki eins mikið vatn og áætlað var í fyrstu.
Þegar rýnt er í notkunarminnstur síðastliðinna vikna sést að notkunin hefur farið stigvaxandi og náði hámarki í gær þegar hún fór tugum prósenta umfram það sem vanalegt er á þessum árstíma. Samhliða þessu veldur mikil þurrkatíð í sumar því að vatnsból í Hlíðarfjalli og á Glerárdal hafa gefið heldur minna en vanalegt er eða á bilinu 15 - 20% minna. Þegar þetta tvennt fer saman gerist það að vatnsstaðan í miðlunargeymum fer niður fyrir öryggismörkin.
Þá er rétt að geta þess að vatnsból vatnsveitunnar í Vaðlaheiði, s.n. Halllandsból hafa gefið mun meira eftir en að ofan getur eða um allt að 2/3 sem þýðir að mjög mikilvægt er að á því veitusvæði sé farið mjög sparlega með kalda vatnið. Dreifibréf hér að lútandi verður sent á alla notendur þar í dag.
Í ljósi þess að áfram er spáð þurrviðri og hlýindum er mjög mikilvægt að íbúar á veitusvæðum Norðurorku fari sparlega með vatnið og þá einkum og sér í lagi að beðið verði með vökvun lóða og opinna svæða. Þá er einnig sjálfsagt mál að nýta önnur hefðbundin ráð til þess að fara sparlega með kalda vatnið. Ráð sem eru almenn í mörgum löndum Evrópu og reyndar einnig á ýmsum svæðum á Íslandi þar sem vatnsveitur eru viðkvæmar fyrir þurrkatíð.
Nokkur ráð til að fara sparlega með vatnið (ráð sem eru mjög almenn hjá mörgum nágrannalöndum okkar):
Aðgangur að nægu og hreinu vatni eru mikil lífsgæði og eðlilegt að okkur bregði þegar útlit er fyrir skort á þeim. Því er okkur hollt að minnast þess að vatn er langt frá því að vera sjálfsagt mál og sjálfsögð lífsþægindi. Margir þekkja að Vestmanneyingar bjuggu við það áratugum saman að nýta regnvatn og þurftu að safna því á skipulegan hátt. Þetta kallaði einnig á að mjög sparlega þurfti að fara með jafnvel þó húseigendur hefðu komið sér upp ágætis vatnstönkum við eða innbyggt í hús sín. Þess má geta að í dag er allt vatn í Vestmannaeyjum selt eftir mæli inn í hvert hús enda er það sótt um mjög langan veg með ærnum tilkostnaði og því mjög mikilvægt að sparlega sé farið með vatnið.
Á erlendum vefsíðum má finna fjöldan allan af ráðum til þess að fara sparlega með vatn eins og til dæmis hér þar sem talin eru upp 100 ráð til þess að spara vatn. Þessi ráð lúta að því að spara vatn bæði vegna þess að lítið er til af því en einnig og ekki síður vegna þess hversu dýrt það er.
Það er von okkar að með samstilltu átaki og virkum sparnaðarráðum þurfum við ekki að hafa áhyggjur að beinum vatnsskorti og því mikilvægt að allir leggist á eitt í þessum efnum.
Þess ber að geta að í áætlunum fyrir framkvæmdir vatnsveitu þetta árið er gert ráð fyrir endurnýjun vatnsbóla á Glerárdal (sem þjóna Akureyri), við Garðsvík (sem þjóna Svalbarðsstrandarhreppi) og við svonefnd Grísárárból (sem þjóna Eyjafjarðarsveit). Framkvæmdum við Grísárárból er lokið og þessa daganna er unnið við bólin á Glerárdal. Þessi vinna er framhald á vinnu við endurnýjun og úrbætur á vatnsbólum sem hófust í fyrra, sbr. frétt um það á heimasíðu fyrirtækisins.
Opnunartími Norðurorku
Opið virka daga kl. 8-12 og 13-15