Staðan á heitu vatni á starfssvæði Norðurorku

Íslendingar eru lánsamir að hafa aðgang að þeirri einstöku auðlind sem jarðhitavatn er, en um 90% heimila landsins eiga kost á að nýta sér það. Jarðhitasvæðið á Hjalteyri hefur verið stærsta vinnslusvæði Norðurorku síðustu tuttugu ár en nú eru áskoranir við framundan og því biðlum við til fólks um að fara vel með heita vatnið og huga að notkuninni.

Hvernig sýnum við ábyrga orkunotkun þegar kemur að heitu vatni:

Heiti potturinn

Fátt er betra en að hlamma sér í heitan pott. Þar gildir þó að vera ábyrgur í sinni orkunotkun og sleppa því að fylla á heita pottinn yfir köldustu vetrardagana. Sér í lagi ef aðeins er um að ræða tíu mínútur í heita pottinum, þá er sturtan betri kostur.

Snjóbræðslan

Á síðustu áratugum hefur notkun jarðhita til snjóbræðslu farið vaxandi og nú er svo komið að gert er ráð fyrir snjóbræðslukerfum við flest ný hús, bílastæði og bílaplön á hitaveitusvæðum. Snjóbræðsla getur verið orkufrek, munum því að skrúfa fyrir auka innspýtingu þegar hennar er ekki þörf. Með nákvæmari stýringu á snjóbræðslunni allt árið um kring næst betri árangur auk þess sem hún veldur minna álagi og orkureikningurinn lækkar.

Opnir gluggar

Förum vel með varmann, athugum með þéttingar á gluggum og hurðum og tryggjum að hitakerfið sé að virka rétt. Ef við þurfum að lofta út er betra að hafa glugga vel opinn í tíu mínútur og loka honum svo í stað þess að hafa gluggann opinn allan daginn.

Athuga stillingar á ofnum

Stillum ofna á óskahita hvers herbergis. Ofn ætti að vera heitastur efst og kólna eftir því sem neðar dregur. Hyljum ekki ofna með gardínum eða húsgögnum, því þannig hindrum við hitastreymi sem kemur í veg fyrir jafna orkudreifingu í herberginu.

Hitakerfi

Íslensk heimili (100 fm) notar árlega um 500 rúmmetra (tonn) af heitu vatni eða eina meðalstóra sundlaug. Fáum fagfólk til að yfirfara hitakerfi hússins reglulega. Þannig nýtum við orkuna betur og orkureikningurinn lækkar.

Óþarfa rennsli

Ein dýrmætasta auðlind okkar Íslendinga er heita vatnið. Oft gleymist að þessi orka telst til munaðar víða um heim. Á Íslandi hefur notkun á heitu vatni aukist mikið undanfarin ár og er því áskorun fyrir hitaveitur að anna eftirspurn. Berum virðingu fyrir þeirri auðlind sem jarðhitavatn er og látum það ekki renna að óþörfu.

Hvaðan kemur heita vatnið á starfssvæði Norðurorku?

Jarðhitasvæðið á Hjalteyri hefur verið stærsta vinnslusvæði Norðurorku síðustu tuttugu ár. Þar eru þrjár borholur sem sjá Akureyringum og nærsveitungum fyrir um það bil 60% af heitu vatni. Fyrsta vinnsluholan var boruð sumarið 2002 og kom þá glögglega í ljós hve öflugt svæðið er. Annarri vinnsluholu var bætt við í ársbyrjun 2005 og var hún fyrst og fremst hugsuð sem varahola. Með vaxandi heitavatnsnotkun á þjónustusvæði Norðurorku fór hinsvegar svo að báðar holurnar voru í notkun allan ársins hring. Vorið 2018 var því þriðja holan boruð til viðbótar og reyndist hún vera ein aflmesta lághitahola sem boruð hefur verið á Íslandi. Vinnslusvæðið á Hjalteyri hefur staðið undir allri aukningu í heitavatnsnotkun Akureyringa og nærsveitunga síðustu tuttugu ár en nú eru áskoranir framundan.

Breytt staða á Hjalteyri

Undir lok árs 2021 fóru að koma fram vísbendingar um aukið klóríðmagn í jarðhitavatninu á Hjalteyri, sem benda til snefilmagns af sjó. Verið er að rannsaka svæðið í þeirri von að í framhaldinu verði hægt að stöðva innstreymi sjávar. Í ljósi þess liggur fyrir að ráðast þarf í umfangsmiklar og fjárfrekar framkvæmdir á næstu árum til að mæta aukinni og vaxandi þörf fyrir heitt vatn á starfssvæði Norðurorku. Hafa ber í huga að eftir því sem tímanum fleygir fram og við fullnýtum einstök svæði þá þarf jafnóðum að leita nýrra til að taka við þegar þörf verður á. Því þarf sífellt að leita lengra, leggja í meiri rannsóknir og kosta meiru til svo tryggja megi samfélaginu heitt vatn. Nú hefur Norðurorka hafið undirbúning að virkjun jarðhitasvæðis við Ytri Haga, norðan Hjalteyrar og einnig er verið að kanna nýtingu á glatvarma frá aflþynnuverksmiðju TDK í Krossanesi.

Ábyrg orkunotkun mikilvæg

Mikil aukning er í heitavatnsnotkun í samfélaginu, langt umfram fólksfjölgun. Mikilvægt er að samhliða aukinni öflun sé unnið frekar með notkunarhliðina, þ.e. að umgengni okkar um jarðhitaauðlindina sé ábyrg og að jarðhitavatni sé ekki sóað eða það nýtt til verkefna sem skipta samfélagið minna máli. Í því samhengi er gott að hafa í huga að enginn getur gert allt en allir geta gert eitthvað.

Horfa á myndband um ábyrga heitavatnsnotkun

Hvernig er orkunýtingin á þínu heimili?