Dóttur- og hlutdeildarfélög

Fallorka ehf.

Fallorka ehf. er dótturfélag Norðurorku og hefur með höndum framleiðslu og sölu á raforku til viðskiptavina um land allt. Fallorka á og rekur fjórar vatnsaflsvirkjanir sem eru Djúpadalsvirkjun I og II í Eyjafirði og Glerárvirkjun I og II á Akureyri.

Vistorka ehf.

Vistorka ehf. er verkefnastofa eigenda Norðurorku á sviði umhverfismála. Unnið er með lausnir sem nýtast til að ná markmiðum um kolefnishlutlaust samfélag þar sem stóra verkefnið er orkuskipti í samgöngum. 

Tengir hf.

Tengir hf. er hlutdeildarfélag Norðurorku hf. og er eignarhluti félagsins rúm 38%. Fyrirtækið rekur ljósleiðaranet á Norðurlandi.

NORAK ehf.

NORAK ehf. er hlutdeildarfélag Norðurorku hf. en Norðurorka hf., Rafeignir ehf. og Álag ehf. eiga fyrirtækið að jöfnu. Félagið á og rekur spennuvirki við álþynnuverksmiðju TDK í Krossanesi sem spennir niður raforku sem kemur frá aðveitustöð Landsnets við Rangárvelli.  

Hrafnabjargavirkjun ehf.

Hrafnabjargavirkjun ehf. er að 48,75% hlut í eigu Norðurorku, 48,75% hlut í eigu Orkuveitu Húsavíkur og 2,5% eru í eigu Atvinnueflingar Þingeyjarsýslu. Félagið var stofnað um fýsileika þess að nýta vatnsorku í Skjálfandafljóti ofan Bárðárdals. 

Íslensk orka ehf.

Norðurorka er hluthafi í félaginu Íslensk orka ehf. en félagið heldur utan um jarðhitaréttindi, borholur og rannsóknir á jarðhitakerfum í Öxarfirði. Mat stjórnar Íslenskrar orku er að enn sé mögulegt að markaðssetja heitt vatn af svæðinu til iðnaðarframleiðslu komi fram áhugasamir aðilar um nýtingu og rekstur. 

Netorka hf.

Norðurorka á 7,7% hlut í Netorku hf. sem gegnir því hlutverki að vera sameiginlegt mæligagna- og uppgjörsfyrirtæki fyrir íslenskan raforkumarkað. 

Eimur

Eimur er samstarfsverkefni Landsvirkjunar, Eyþings, Norðurorku og Orkuveitu Húsavíkur um bætta nýtingu orkuauðlinda og aukna nýsköpun í orkumálum á Norðurlandi eystra.
Starf Eims er um margt óáþreifanlegt og lýtur frekast að því að sækja tækifæri, auka þekkingu, umtal og möguleika aðila á að fjölnýta auðlindastrauma orkuauðlinda sem eru á svæðinu til verðmætasköpunar.

Vaðlaböð ehf.

Vaðlaböð ehf. var verkefni um náttúruböð sem kom út úr hugmyndasamkeppni EIMS á nýtingu heita vatnsins úr Vaðlaheiðargöngum. Norðurorka er með 30% eignarhlut á móti Tækifæri hf. og Stefáni Tryggvasyni hugmyndasmið. Verkefnið var að kanna möguleika þess að koma upp náttúruböðum og nýta heita vatnið úr Vaðlaheiðargöngum. Nú þegar hugmyndin hefur verið framkvæmd af Skógarböðum er hlutverki félagsins lokið og félagið því í dvala.

 Samorka

Norðurorka er aðili að SAMORKU, samtökum orku- og veitufyrirtækja í landinu og í gegnum þau aðili að Samtökum atvinnulífsins. Samtökin eru málsvari orku- og veitufyrirtækja og beita sér fyrir farsælliþróun í orku‐ og veitumálum á Íslandi.Eitt af meginverkefnum Samorku eru þó innri málefni svo sem kynningar-, fræðslu- og félagsstarfsemi aðildarfyrirtækjanna en í ráðum og nefndum Samorku situr fjölmargt starfsfólk aðildarfyrirtækjanna.