Í apríl 2015 varð vatnsflóð í Vaðlaheiðargöngum við gerð þeirra. Hrun varð í göngunum Fnjóskadalsmegin eða um 6.450 m frá vestari gangamunanum og streymdu um 500 l/s af vatni inn í göngin sem þá fylltust af köldu vatni.
Þrátt fyrir að vatnið hafi vissulega valdið framkvæmdaraðila vandræðum þá er óhætt að segja að íbúar svæðisins hafi dottið í lukkupottinn þar sem þarna var mikið magn af hreinu köldu vatni. Vatnstökustaðurinn í Vaðlaheiði er í heppilegri hæð, halli er frá vatnstökustaðnum í Eyjafjörð og efnagreining vatnsins kom vel út.
Ákvörðun var tekin um að ná vatninu út úr göngunum og átti Norðurorka í góðu samstarfi við framkvæmdaraðilann þegar kom að framkvæmd.
Hvernig er kalda vatnið fangað?
Kalda vatnið streymdi ekki einungis fram á einum stað heldur mörgum sem flækti málin.
Niðurstaðan varð sú að smíðaðir voru ryðfríir bakkar, 1-3 metrar að lengd, sem boltaðir voru upp í loft og veggi. Frá þeim voru lagðar 90 mm lagnir niður í sverar safnlagnir sem liggja í vegöxlum.
Vinnuaðstæður voru krefjandi og oft á tíðum erfiðar þar sem kalt vatn streymdi niður á mörgum stöðum.
Þegar bakkarnir voru komnir upp og þeir tengdir, var steypt yfir þá ásamt lögnum. Þá þurfti að bora fyrir boltum til að halda klæðningunni og gæta þurfti sérstakrar varúðar til að boltarnir færu ekki í lagnirnar á bakvið klæðninguna.
Safnlagnirnar liggja í vegöxlum inn í svokallaða vatnsþró sem steypt er inn í göngunum í 155 metrum yfir sjávarmáli. Þar er vatni safnað saman og það síðan leitt út úr göngunum Eyjafjarðarmegin í gegnum 280 mm lögn.
Í hvað verður kalda vatnið notað?
Litið er á kalda vatnið í Vaðlaheiðargöngum sem mögulegt framtíðar neysluvatn fyrir íbúa Akureyrar og nágrennis. Vonir eru um að Vaðlaheiði geti þá leyst vatnstökusvæðið á Vöglum í Hörgárdal af hólmi en það svæði býr við talsverða ógn þar sem þjóðvegur 1 liggur í gegnum það. Vatnið úr Vaðlaheiðargöngum mun einnig styrkja vatnsveitu Svalbarðsstrandar.
Búið er að leggja lögn frá göngunum að Skógarböðunum þaðan sem síðar verður lögð lögn til Akureyrar.
Kalda vatnið er einnig nýtt til kælingar á rafmagnsbúnaði í göngunum auk þess sem það er leitt í brunahana í útskotum.
Næstu skref varðandi kalda vatnið
Byggja þarf miðlunargeymi utan ganga í um það bil 110 metra hæð yfir sjávarmáli. Miðlunargeymir er eins konar risastór vatnstankur sem hjálpar til við að geyma vatn og dreifa því jafnt til heimila og fyrirtækja. Auk byggingu miðlunargeymis þarf að hanna dreifikerfi til Akureyrar. Þar verður mögulega áskorun að dreifa vatninu upp í mót í vatnstanka bæjarins.
Nýting á heitu vatni
Í febrúar 2014 opnaðist sprunga Eyjafjarðarmegin, um 2.580m frá vestari gangamunanum. Inn í göngin streymdi tæplega 50°C heitt vatn. Til að fanga heita vatnið var reynt að loka sprungunni eins og kostur var og tókst að þétta töluvert í henni. Vatn hélt þó áfram að streyma upp úr gangagólfinu og neðarlega úr veggjum.
Steypt var þró í gólfið og út frá henni liggur 225mm lögn út úr göngunum sem flytur um 35 l/s af 48.6°C heitu vatni. Heitur jarðvegurinn í göngunum gerir það að verkum að hitastig vatnsins helst tiltölulega stöðugt þrátt fyrir að lögnin sé óeinangruð. Hitastig vatnsins er því um það bil 47.7°C þegar það streymir út úr göngunum.