Fráveitukerfi Akureyrar er viðamikið og markvisst hefur verið unnið að uppbyggingu þess, m.a. með byggingu fjölda dælustöðva, yfirfallsstöðva og lagningu þrýstilagnar meðfram strandlengjunni að nýrri útrás við Sandgerðisbót.
Árið 1991 réði Akureyrarbær norska verkfræðifyrirtækið A.R. Reinertsen til að hanna breytingar og framtíðarfyrirkomulag fráveitukerfisins í það form sem við þekkjum í dag. Stórum áfanga í þessari uppbyggingu er nú lokið því búið er að taka nýtt hreinsimannvirki í Sandgerðisbót í notkun.
Hér fyrir neðan má fræðast um byggingu hreinsistöðvarinnar.
Forsagan
Norðurorka tók við rekstri fráveitukerfis Akureyrar um áramótin 2013-2014. Mikil vinna var lögð í að rýna þær hugmyndir sem lágu fyrir um byggingu hreinsistöðvar þegar NO tók við fráveitunni. Niðurstaðan var sú að fara aðra leið en upphaflega var áætlað sem meðal annars leiddi til lægri kostnaðar við framkvæmdina. Þá var í fyrri áætlunum gert ráð fyrir því að hreinsistöðin þyrfti ekki að fara í mat á umhverfisáhrifum. Var þá byggt á því að stórnotendur fráveitunnar færu í breytingar hjá sér sem minnkuðu álagið á veituna og viðtakann þannig að það yrði undir þeim viðmiðunarmörkum sem lög og reglur gera ráð fyrir.
Þrátt fyrir að þessi aðferðarfræði geti verið góð og gild tók NO ákvörðun um að ganga ekki út frá henni varðandi ákvörðun um mat á umhverfisáhrifum, þ.e. ekki var beðið eftir því að einstakir viðskiptavinir fráveitunnar færu í aðgerðir hjá sér til að svonefnd persónueiningaviðmið yrðu innan skilgreindra marka.
Framkvæmdin í umhverfismat
Samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum var framkvæmdin matsskyld. Viðmiðunarmörkin eru mæld í svokölluðum persónueiningum en persónueining er það sem ein persóna lætur frá sér á einum sólahring. Viðmiðunarmörk um matskyldu eru 50 þúsund persónueiningar en á Akureyri samsvara perónueingingarnar (lífrænt innihald skólpsins) um 86 þúsund m.a. vegna mikils iðnaðar á starfssvæðinu.
Matsskýrsla var unnin af verkfræðistofunni EFLU fyrir hönd Norðurorku og í febrúar 2017 kom fram í áliti Skipulagsstofnunar að áhrifin sem framkvæmdin væri talin hafa á landnotkun og viðtaka fráveitunnar væru almennt jákvæð. Enda yrði með tilkomu hreinsistöðvarinnar skólpi ekki lengur veitt óhreinsuðu út í Eyjafjörð auk þess sem þynningarsvæði útrásar fráveitu yrði minna en áður og fjær stöndinni.
Viðtakinn - Eyjafjörður
Það vatnasvæði sem tekur við fráveituvatni er kallaður „viðtaki“, hér Eyjafjörðurinn. Í okkar tilfelli er viðtakinn/Eyjafjörðurinn flokkaður sem „síður viðkvæmur“ viðtaki sem á sér tilvísun í lög og reglugerðir um uppyggingu og rekstur fráveita.
Árið 1997 útbjó verkfræðistofan Vatnaskil straumfræðilíkan af innri hluta Eyjafjarðar. Straumfræðilíkanið myndaði grunn til hönnunar og legu útrásarpípunnar á þann veg að útrásarvatnið nær út í sjávarstrauma og berst þannig út fjörðinn en ekki inn með ströndinni.
Eins og áður segir á skólp ekki að berast inn með ströndinni eftir tilkomu hreinsistöðvarinnar og þannig verður dregið verulega úr magni saurkólígerla í fjörunum við Akureyri. Þess má geta að Norðurorka tekur gerlamælingar fjórum sinnum á ári á 16 stöðum meðfram ströndinni frá Krossanesi inn að Leirubrú auk þess tekur Heilbrigðiseftirlitið sýni reglulega.
Upphaf verkefnis
Árið 2017, að afloknu umhverfismati var verkið boðið út en ekkert tilboð barst.
Verkið var aftur boðið út ári síðar og í maí 2018 var undirritaður verksamningur við byggingarverktakann SS Byggi um byggingu hreinsistöðvarinnar á uppfyllingu í Sandgerðisbót.
Húsnæði og búnaður
Gísli-arkitekt á Akureyri sá um arkitektúr hreinsistöðvarinnar en verkfræðihönnun, þ.e. hönnun á húsbyggingu, vélbúnaði og útrás var í höndum EFLU. Bygging stöðvarinnar var í höndum SS-byggis.
Nýja hreinsistöðin er ein af stærri hreinsistöðvum landsins og er nokkuð ólík fyrri stöðvum í útfærslu m.a. að því leyti að hreinsistöðin er tvískipt. Þannig er hægt að loka helming stöðvarinnar í einu fyrir skólprennsli og vinna að viðhaldi án þess að stöðva rekstur stöðvarinnar. Að auki er fráveituvatninu aðeins dælt einu sinni upp á hreinsibúnaðinn og síðan er sjálfrennsli út um útrennslispípuna. Stöðin er með tvær útrásir þ.e. 400 metra útrás og síðan álagsútrás sem er 90 metrar. Verði stöðin óvirk mun fráveituvatnið renna út um álagsútrásina.
Í þessum fyrsta áfanga er skólpið grófhreinsað en stöðin, og ekki síst stærð lóðar, gera ráð fyrir frekari hreinsun skólpsins í framtíðinni. Hreinsibúnaðurinn, svokölluð þrepahreinsun, kemur frá Nordic water í Svíþjóð.
Húsið er steinsteypt með einangrun í milli tveggja steinsteyptra veggja. Þannig er húsið talið nokkuð viðhaldsfrítt enda má segja að það standi á álagsstað. Á þaki hússins eru þakgluggar á móti suðri álíka og var á gömlu Sambandsverksmiðjunum á Gleráreyrum. Er það tilvísun í að stór hluti af gömlu verksmiðjuhúsunum var urðaður á staðnum til að mynda uppfyllingu fyrir hreinsistöðina.
Fyrsta þreps hreinsun
Hreinsistöðin uppfyllir reglugerð um svokallaða „fyrsta þreps heinsun“ þ.e. að allir fastir hlutir í fráveituvatninu eru síaðir frá með þriggja millimetra þrepasíun. Fasta efnið, eða grófa efnið, verður eftir, því er pakkað og það fært til urðunar.
Fráveituvatninu er dælt upp á hreinsibúnaðinn en eftir sigtun er hreinsað fráveituvatnið leitt út um 400 metra útráslögn sem endar á 40 metra dýpi og þar dreifist það innan þynningarsvæðis.
Útrásarlögnin, sem er 900 mm í þvermál, liggur á sjávarbotni á forsteyptum sökkum.
Meðalrennsli um hreinsistöðina er um 250 l/s en stöðin er hönnuð til að anna allt að 750 l/s. Á Íslandi er fráveituvatn mjög „þynnt“ vegna mikillar vatnsnotkunar. Megnið af retúrvatni skilar sér í fráveituna auk þess sem megnið af fráveitukerfi bæjarins er einfalt, þannig að regn,- og ofanvatn skilar sér með fráveituvatninu í gegnum stöðina.
Rekstur hreinsistöðvarinnar og kostnaður
Rekstur stöðvarinnar er stærsti einstaki rekstrarliður fráveitukerfisins, en hann er talinn nema allt að 9% af tekjum fráveitunnar. Það er því ljóst að það er mikið átak fyrir samfélagið hér að ná að standast kröfur löggjafans um hreinsun.
Á hinn bóginn er það gríðarlega mikilvægt fyrir okkur sem búum við þröngan fjörð, og þann matvælaiðnað sem hér er, að gera það sem í okkar valdi stendur til að ganga vel um náttúruna.
Frumkostnaðaráætlun verksins var um 900 milljónir króna. Verkið hefur breyst nokkuð á framkvæmdatímanum eins og gerist og er áætlað að kostnaðurinn verði um einn milljarður króna.
Hreinsistöðin er hönnuð til að taka á móti minni hópum og gestum í fræðslutilgangi.