Til að koma heita vatninu frá borholusvæðum og til notanda þarf margskonar búnað, tæki og mannvirki. Allt byrjar þetta í hitaveituborholum á vinnslusvæðum, síðan taka aðveituæðar við en þær flytja vatnið frá vinnslusvæðum og nær notendum en þá tekur dreifikerfi hitaveitu við sem kemur heita vatninu alla leið inn í hús til notanda.
Hitaveituborholurnar á vinnslusvæðunum eru misdjúpar. Í flestum borholunum eru dælur sem dæla heita vatninu upp úr borholunum en í einstaka borholum er sjálfrennsli. Yfir holunum eru svokölluð borholuhús.
Á vinnslusvæðum er einnig eimskilja en þangað fer vatnið eftir að það kemur upp úr borholunum. Tilgangur eimskilju er að losa eimbólur úr heita vatninu áður en vatnið leggur af stað af vinnslusvæðinu í gegnum aðveituæðar.
Frá Eimskiljunni er heita vatnið svo flutt með aðveituæðum í safngeymi sem staðsettur er nær notandanum. Aðveituæðarnar eru í dag allar lagðar neðanjarðar en elsta aðveituæð hitaveitu Norðurorku, frá vinnslusvæðinu á Laugalandi í Eyjafjarðarsveit og til Akureyrar, var hinsvegar lögð ofanjarðar á sínum tíma.
Dreifikerfi hitaveitu samanstendur af lögnum, dælukössum og brunnum. Það eru um 650 km af lögnum sem flytja heita vatnið frá safngeymum og heim til notandans og sumstaðar eru á leiðinni dælukassar eða svokallaðir hitaveitubrunnar.
Hitaveitubrunnar eru barn síns tíma í dreifikerfi hitaveitunnar og er unnið jafnt og þétt að því að fækka þeim. Þannig verður kerfið öruggara, bæði með tilliti til öryggis starfsfólks sem vinnur við kerfið og ekki síður eykst afhendingaröryggi með fækkun eldri hitaveitubrunna.
Sjá frekari tölfræði um hitaveituna hér til hægri.