Öryggismál

Norðurorka er veitufyrirtæki sem þjónustar heimili og atvinnulíf með vinnslu og dreifingu á heitu vatni og neysluvatni, dreifingu á raforku og rekstri fráveitu.

Fyrirtækið leggur metnað sinn í að koma í veg fyrir slys við vinnu með fyrirbyggjandi aðgerðum, þ.e. að almenningi stafi ekki hætta af framkvæmdunum og að starfsfólk gangi líkamlega jafn heilt frá vinnu og það gengur til hennar. Því er lögð áhersla á að tilhögun vinnu og framkvæmd hennar sé með þeim hætti að gætt sé fyllsta öryggis, góðs aðbúnaðar, hollustuhátta og að hún sé unnin í fullu samræmi við reglur Vinnueftirlits ríkisins.

Bæði nýlögnum og viðhaldi á eldri kerfum getur fylgt truflun á umferð og töluvert jarðrask. Norðurorka leggur áherslu á að upplýsa íbúa um væntanlegar og yfirstandandi framkvæmdir m.a. með því að senda sms og/eða dreifa miðum í hús. Þegar framkvæmdum lýkur göngum við þannig frá vinnusvæðinu að ekki sjáist ummerki um framkvæmdirnar.

Norðurorka leggur áherslu á að starfsfólk haldi við og auki þekkingu sína á öryggismálum. Reglulega eru haldin skyndihjálpar- og brunavarnarnámskeið, auk ýmissa smærri námskeiða sem tengjast öryggismálum, fyrir starfsfólk.

Norðurorka vinnur stöðugt í úrbótum í öryggis-, heilsu- og vinnuumhverfismála. Starfsfólk Norðurorku er hvatt til að skrá öll slys, næstum slys og ábendingar um slysagildrur til að tryggja utanumhald úrbóta. Í samræmi við reglur Vinnueftirlitsins er starfandi öryggisnefnd í fyrirtækinu sem í sitja fjórir fulltrúar, tveir öryggistrúnaðarmenn (kosnir af starfsmönnum) og tveir öryggisverðir (tilnefndir af fyrirtækinu) en sú nefnd fer reglulega yfir allar þær skráningar og gengur úr skugga um að úrbætur hafi verið framkvæmdar.

Ekkert verk er svo mikilvægt að fórna megi öryggi fólks við framkvæmd þess !