Kalda vatnið flokkast sem matvara og því eru gerðar strangar kröfur um vatnsvernd.
Í kringum vinnslusvæðin okkar hafa verið skilgreind vatnsverndarsvæði og ræðst stærð og lögun þeirra af landfræðilegum aðstæðum. Vatnsverndarsvæði skiptast í brunnsvæði, grannsvæði og fjarsvæði og eru þau skilgreind nánar í reglugerð.
Hér að neðan má sjá nánari upplýsingar um hvert vinnslusvæði/vatnsverndarsvæði Norðurorku fyrir sig en rétt er að vekja athygli á því að hægt er að fara inn í kortastjá okkar (HÉR) og haka þar við „Vatnsverndarsvæði“ undir „Vatnsveita“ og skoða þannig svæðin í betri upplausn.
Akureyri - Sellandslindir á Glerárdal og Hesjuvallalindir í Hlíðarfjalli
Um 75-80% neysluvatns bæjarbúa á Akureyri koma úr Hlíðarfjalli. Selllandslindir og Hesjuvallalindir eru staðsettar sínhvoru megin við skíðasvæði Akureyringa. Árstíðarbundið rennsli er úr lindunum og ekki þarf að dæla vatninu.
Hér er mikilvægt að taka fram að stutt er niður á grunnvatnsstraumana sem fæða lindirnar og því ekki langur tími til að bregðast við óhöppum. Þess vegna, líkt og á öðrum vatnsverndarsvæðum, er mjög mikilvægt að láta vita strax ef minnsti grunur er á að óhapp á svæðinu geti valdið mengun!
Athugið að hægt er að stækka myndirnar með því að smella á þær.
Hörgársveit - Vaglir við Þelamörk í Hörgársveit
Þar sem vatnsverndarsvæðin í Hlíðarfjalli anna ekki vatnsþörf Akureyringa þurfa Akureyringar einnig, til viðbótar við vatnsverndarsvæðin í Hlíðarfjalli, að treysta á vatnsverndarsvæðið á Vöglum í Hörgárdal
Á Vaglaeyrum hafa verið boraðar holur í eyrar Hörgár og er vatni dælt upp úr þeim og til Akureyrar. Eins og sjá má á myndinni hér að neðan þá er vatnsverndarsvæðið tiltölulega stórt enda er fjarsvæðið í raun allt vatnasviðið.
Þjóðvegur 1 liggur í gegnum grannsvæðið, rétt ofan brunnsvæðis, með tilheyrandi ógn fyrir vatnsverndina á svæðinu.
Mikilvægt er að vegfarendur tilkynni strax til Norðurorku ef minnsti grunur er á að óhapp á svæðinu geti valdið mengun! Hafa ber í huga að að jafnvel það sem kann að virðast minniháttar óhapp getur gert vatnstökusvæði óstarfhæft til lengri tíma.
Hrísey
Neysluvatn Hríseyinga er að mestu lindarvatn. Við mikla notkun bætist sjálfvirkt við neysluvatn úr nærliggjandi borholu. Í þurrkatíð, líkt og var sumarið 2021, þornaði lindin upp og þurfti því eingöngu að treysta á vatn úr borholunni.
Svalbarðsströnd - Halllandslindir og Garðsvíkurlindir
Á Svalbarðsströnd eru tvö vatnsverndarsvæði sem sjá íbúum á svæðinu fyrir köldu vatni, Garðsvíkurlindir og Halllandslindir. Myndir af lindunum má sjá hér að neðan. Garðsvíkurlindir eru á efri myndinni en Halllandslindir eru á þeirri neðri.
Halllandslindir eru nokkru sunnar en Garðsvíkurlindir.
Eyjafjarðarsveit - Kaupangsveita
Haustið 2020 keypti Norðurorka Kaupangsveitu sem sér íbúum í Eyjafjarðarsveit, frá Austurhlíð suður að Þverá, fyrir neysluvatni. Vatnið kemur úr tveim vatnstökustöðum í 194 metra hæð yfir sjávarmáli.
Aðstæður við þessa vatnstökustaði eru ekki traustvekjandi, með tilliti til mengunar frá yfirborðsvatni í leysingum. Því er dálitlum erfiðleikum bundið að gera þá örugga þar sem báðir þessir vatnstökustaðir eru undir sprungnu klettabelti. Hætta er á að yfirborðsvatn leiti niður í þessar sprungur og stutt er í grunnvatnsstrauma.
Til að gera vatnið frá vatnsbólunum öruggt til neyslu var farið í endurbætur á Kaupangsveitu árið 2021. Þá var ákveðið að leiða vatnið í gegnum lýsingartæki áður en það fer út á veituna.
Það vantar því töluvert uppá að lindirnar anni eftirspurn og því nauðsynlegt að fá sjálfkrafa vatn frá Vaðlabyggð inná veituna eftir þörfum.
Eyjafjarðarsveit - Grísarárlindir
Grísarárlindir sjá Hrafnagilshverfi og Kristneshverfi fyrir köldu vatni.
Eyjafjarðarsveit - Hálslindir
Innarlega í Eyjafjarðarsveit eru Hálslindir sem sjá nokkrum bæjum í kring fyrir köldu vatni.