Sýnataka meðfram strandlengjunni

Frá árinu 2005 hafa reglulega verið tekin gerlasýni (saurkólí) meðfram strandlengjunni á Akureyri til að fylgjast með hreinleika sjávar við strandlengjuna m.t.t. saurkólímengunar. Sýni eru tekin á sextán stöðum, a.m.k. fjórum sinnum á ári af starfsfólki Norðurorku og/eða Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra.

Hér að neðan er tafla yfir sýnatökur (Norðurorku og Heilbrigðiseftirlitsins) frá árinu 2016. Í töflunni kemur fram fjöldi saurkólígerla í hverjum 100 ml af sjó. Almenna reglan er að vetrarsýnin koma verr út í ljósi þess að sólarljós flýtir niðurbroti gerla.

Hægt er að stækka myndina með því að smella á hana

Í reglugerð um fráveitur (nr. 798 frá 1999) annars vegar segir að þar sem útivistarsvæði eru við fjörur eða matvælaiðnaður í grennd skuli fjöldi saurkólígerla vera undir 100 í 100 mL sjó (grænt) utan þynningarsvæðis.

Í reglugerð um baðstaði í náttúrunni (nr. 460 frá 2015) hins vegar segir að baðvatn á baðstöðum í náttúrunni teljist 1. flokks ef fjöldi saurkólígerla er 250 í 100 mL og 2. flokks ef fjöldi saurkólígerla er 500 í 100 mL sjó (blátt). Hér verður ekki lagt mat á hvort er rétthærra en sjá má að miðað við reglugerð um baðstaði í náttúrunni er talið réttlætanlegt, sem dæmi, að synda sjósund ef saurkólígerlafjöldi er innan 500 gerla/100 ml.

Nokkrum sinnum hafa mælst há gildi utan útrásarsvæðisins þ.e. við svæði Nökkva og við Hafnastræti. Í þeim tilfellum hafa sýni verið tekin aftur til staðfestinga og hafa þá staðfestingarsýni verið mun lægri en háu sýnin. Mögulegt er að í fyrra sýninu hafi verið fangað raunverulegt mengunarskot.

Nýjar mælingar verða áfram birtar hér á heimasíðu Norðurorku. Þannig geta íbúar séð niðurstöður úr sýnatökum og metið sjálfir hvort þeir telji réttlætanlegt að stunda sjósund við strendur bæjarins.