Norðurorka hóf framleiðslu metangass úr gömlu ruslahaugunum á Glerárdal fyrir ofan Akureyri í ágústlok árið 2014. Markmið verkefnisins var og er að fanga það metan sem myndast á haugunum og brenna það en þannig drögum við margfalt úr neikvæðum umhverfisáhrifum. Það að hreinsa gasið svo hægt sé að nýta það sem eldsneyti dregur enn frekar úr skaðskemi þess og sparar innflutning á jarðefnaeldsneyti.
Framleiðsluferlið gengur þannig fyrir sig að safnað er hauggasi úr 45 borholum, sem boraðar hafa verið á gamla urðunarstaðnum á Glerárdal. Fjórar til fimm holur eru tengdar saman í einn safnskáp þar sem hverja og eina holu má mæla og stilla sérstaklega. Hauggasið er síðan hreinsað í svokallaðri vatnshreinsistöð og úr verður metangas. Frá hreinsistöðinni er metanið leitt að þjöppustöð sem þjappar metangasinu í 230 bar þrýsting á metanlager, jafnhliða afgreiðslu á ökutæki. Það er OLÍS sem sér um markaðssetningu og smásölu á metani sem Norðurorka framleiðir.
Framleiðslugeta haugsins er minni er áætluð var í upphafi, enda var haugurinn ekki skipulagður með metanvinnslu í huga. Um er að ræða mjög gamaldags ruslahaug þar sem efnaúrgangur, heimilissorp, bílhræ og allt þar á milli er urðað í bland og erfitt er að átta sig á innihaldi haugsins og uppbyggingu hans. Þetta gerir alla áætlanagerð sem og reksturinn erfiðari. Það er fleira sem hefur áhrif, til dæmis veðurfar. Í miklu frosti og þurru veðri dregur úr framleiðslu. Þetta er eitthvað sem við getum ekki stjórnað en við reynum okkar allra besta til að fylgjast með og erum alltaf að verða betri í að læra á hauginn. Það er þó alveg ljóst að framleiðslugetan fer minnkandi.
Í samvinnu við SORPU, sem framleiðir metangas í Reykjavík, er metan nú flutt til Akureyrar til móts við framleiðslu úr Glerárdal. Þetta er gert til þess að halda þeim markaði sem byggður hefur verið upp fyrir metan á svæðinu og skapa grundvöll fyrir frekari metanvæðingu. Frekari metanvæðing getur þó ekki hafist fyrr en metanframleiðsla við stýrðar aðstæður hefst á svæðinu.