Dagana 11.-22. janúar standa yfir fræðsluvikur Norðurorku. Þetta er þriðja árið sem þær eru haldnar með þessu sniði, þ.e. að teknar eru frá tvær vikur á ári, utan háanna framkvæmdatíma, þar sem skipulagður eru fjöldi námskeiða og fyrirlestra fyrir starfsfólk.
Þetta árið er boðið uppá 44 námskeið sem ýmist eru valkvæð eða skyldunámskeið. Allt starfsfólk tekur þátt en þó er misjafnt hvað hver og einn situr mörg námskeið. Tímalengd námskeiða er einnig mismunandi, allt frá hálftíma örnámskeiðum og upp í 3 klst námskeið/vinnustofur.
Fyrirkomulag sem þetta krefst góðrar skipulagningar en fyrirfram hafa skipuleggjendur fræðsluvikna skipt starfsfólki niður á þau skyldunámskeið sem eru á dagskrá. Valkvæðu námskeiðin eru sum hver kennd oftar en einu sinni á þessum tveimur vikum til að starfsfólk hafi val um tíma. Með þessu móti er tryggt að allt starfsfólk hafi möguleika á að sitja þau námskeið sem það hefur áhuga á, auk þess sem truflun á daglegan rekstur fyrirtækisins er haldið í lágmarki.
Þetta árið fara flest námskeiðin fram í gegnum fjarfundabúnað Teams sem gengur vel enda hefur starfsfólk þurft að tileinka sér notkun fjarfundabúnaðar á síðustu mánuðum. Sem dæmi um námskeið/vinnustofur má nefna kunnáttumannanámskeið rafveitu, tímastjórnun og forgangsröðun, yfirferð áhættumats, tekjurammi rafveitu og kennsla á kortasjá auk námskeiða eða kynninga á þeim kerfum sem mikið eru notuð í starfseminni eins og teiknikerfi, atvikaskráningakerfi, WinCC, Workpoint og DMM. Að auki var boðið uppá verkleg námskeið, sem eðli málsins samkvæmt geta ekki farið fram í fjarfundi, svo sem námskeið um notkun lekaleitartækis og upprifjun á krumpun og frágangi lagna.
Að þessu sinni er áberandi hversu mörg fræðsluerinda eru í höndum innanhúss-fólks eða okkar eigin sérfræðinga og er það afar ánægjulegt hversu margir eru tilbúnir að miðla af þeirri mikilvægu þekkingu sem þeir hafa viðað að sér í starfi. Aðeins er um fjögur aðkeypt námskeið að ræða.
Fræðsluvikur Norðurorku eru þáttur í þvi að efla þekkingu starfsfólks og ýta undir vöxt og þróun í starfi.
Svo lengi lærir sem lifir.
Opnunartími Norðurorku
Opið virka daga kl. 8-12 og 13-15