Á ári hverju verða alltaf einhverjir götuskápar fyrir tjóni vegna ákeyrslu. Í einhverjum tilfellum eru tjónin minni þannig að skápurinn einungis skekkist eða skemmist lítillega en í öðrum tilfellum er tjónið meira sem getur þá valdið rafmagnsleysi á ákveðnu svæði.
Eins og fram hefur komið í fréttum í dag var ekið á ljósastaur og götuskáp á Akureyri seint í gærkvöldi sem olli því að rafmagn fór af nokkrum húsum.
Hringt var í bakvakt Norðurorku um kl. 23.30 og fóru Freyja og Halldór rafvirkjar Norðurorku strax á staðinn. Eftir að hafa tryggt að ekki væri hætta af skápnum komu þau rafmagninu aftur á um kl. 01:30. Um bráðabirgðaviðgerð var að ræða en skipt verður um götuskápinn eftir helgi. Þangað til hefur hann verið varinn með sérstökum einangrandi poka eins og sjá má á myndinni og því stafar ekki hætta af skápnum.
Þegar skipt er um götuskáp þarf að brjóta upp malbik og grafa frá en um það bil þriðjungur götuskáps er undir yfirborði. Heimlagnir sem tengdar eru í nálæg hús koma inn í skápinn neðanfrá eins og sést á myndinni hér að neðan (úr safni).
Í númtímasamfélagi, sem háð er því að hafa rafmagn allar stundir, er gott til þess að vita að brugðist sé fljótt við atvikum sem þessum, hvort sem er á dagvinnutíma eða á öðrum tíma. Starfsfólk Norðurorku er meðvitað um mikilvægi þessarar mikilvægu þjónustu sem rafmagnsdreifing er og um sinn þátt í að hún sé alltaf til staðar og virki.
Opnunartími Norðurorku
Opið virka daga kl. 8-12 og 13-15