Aðalfundur Norðurorku hf. árið 2015
Aðalfundur Norðurorku hf. var haldinn í dag 27. mars og var dagskrá í samræmi við samþykktir félagsins.
Rekstur Norðurorku gekk vel á árinu 2014. Ársvelta samstæðunnar var rúmlega 2,9 milljarðar króna. Hagnaður ársins var 662 milljónir króna, eftir skatta, og eigið fé rúmlega 6,6 milljarðar króna. Á aðalfundi í dag var ákveðið að greiða 15% arð til hluthafa eða um 127 milljónir króna. Samstæðureikningur samanstendur af rekstri Norðurorku, dótturfélagsins Fallorku ehf. og áhrifa hlutdeildar félaganna Tengis hf. og Norak ehf., en rekstur þeirra allra gekk vel á árinu, sérstaklega þó Fallorku.
Rekstur félagsins er í takt við áætlanir en þó voru fjárhagsliðir félaginu mun hagstæðari en áætlun gerði ráð fyrir. Félagið átti eignir í Bandaríkjadollurum og skuldaði í evrum en á árinu styrktist dollarinn og evran veiktist. Gengishagnaður samstæðunnar varð af þessum ástæðum um 100 milljónir króna.
Eigið fé samstæðunnar er eins og áður segir rúmir 6,6 milljarðar króna og eiginfjárhlutfall 56,4%. Norðurorka greiddi niður lán á liðnu ári um 395 milljónir króna. Stærstur hluti niðurgreiðslunnar er vegna lána í evrum. Veltufé frá rekstri var tæplega 1,1 milljarður króna og handbært fé í árslok 513 milljónir króna. Langtímaskuldir í árslok voru rúmlega 4,3 milljarðar króna og lækkuðu um 384 milljónir króna milli ára.
Fjárfesting Norðurorku í kerfum og nýframkvæmdum var um 457 milljónir króna, nokkuð minna en áætlað var þar sem enn var frestað byggingu miðlunargeymis ofan Akureyrar. Fjárfestingar þessa árs eru áætlaðar 900 milljónir króna, hitaveita 308 milljónir, fráveita 287 milljónir, vatnsveita 116 milljónir, rafveita 129 milljónir og til annarra rekstrarþátta 59 milljónir króna. Stærsta einstaka verkefnið er uppbygging veitukerfa í nýtt Hagahverfi á Akureyri. Á næstu árum liggja fyrir stór fjárfestingaverkefni sem félagið þarf að takast á við. Hér má nefna byggingu hreinsimannvirkis fyrir fráveitu, aukna orkuöflun fyrir hitaveitu, annað hvort með borun nýrra vinnsluhola við Laugaland og Botn eða með nýrri lögn frá Arnarnesi. Ennfremur verkefni dótturfélagsins Fallorku, bygging nýrrar Glerárvirkjunar.
Um liðin áramót 2014-2015 var ákveðið að breyta innheimtu fráveitugjalds úr því að vera 0,15% af fasteignamati í það að vera fastagjald og síðan ákveðið gjald fyrir hvern fermetra húsnæðis. Sambærileg breyting var gerð á innheimtu vatnsgjalds á árinu 2008. Meginröksemdin er sú að réttlátara sé að miða við stærð fasteignar en fasteignamat þar sem stærðin sé að jafnaði líklegri til að endurspegla notkun á viðkomandi veitum.
Verð á þjónustu og vörum fyrirtækisins skiptir heimili og fyrirtæki miklu og er einn af þeim þáttum sem ráða íbúaþróun sem og tækifærum viðskipatvina okkar. Rekstur félagsins og verkefna þess fyrir íbúana, endurspegla verðskrá þess á hverjum tíma. Verkefni framtíðarinnar eru stór og mikil sem og von okkar að verðskrár fyrirtækisins verði áfram með þeim hagstæðustu litið til samanburðar við sambærilegan rekstur.
Í stjórn Norðurorku voru kjörin, Edward Hákon Huijbens, Friðbjörg Jóhanna Sigurjónsdóttir, Geir Kristinn Aðalsteinsson, Ingibjörg Ólöf Isaksen og Njáll Trausti Friðbertsson.
Í varastjórn voru kjörin, Eva Hrund Einarsdóttir, Jóhann Jónsson, Óskar Ingi Sigurðsson, Margrét Kristín Helgadóttir og Matthías Rögnvaldsson.
Opnunartími Norðurorku
Opið virka daga kl. 8-12 og 13-15