Aðalfundur Norðurorku hf. árið 2014
Aðalfundur Norðurorku hf. var haldinn í dag 21. mars og var dagskrá í samræmi við samþykktir félagsins.
Rekstur Norðurorku gekk vel á árinu 2013. Ársvelta samstæðunnar var tæplega 2,6 milljarðar króna. Hagnaður ársins var 569 milljónir króna, eftir skatta og eigið fé tæplega 6,3 milljarðar króna. Á aðalfundi í dag var ákveðið að greiða 15% arð til hluthafa eða um 127 milljónir króna. Samstæðureikningur samanstendur af rekstri Norðurorku, dótturfélagsins Fallorku ehf. og áhrifa hlutdeildar félaganna Tengis hf. og Norak ehf., en rekstur þeirra allra gekk vel á árinu, sérstaklega þó Fallorku.
Hagnaður er í takt við áætlanir en rekstrarkostnaður eykst nokkuð samfara ákvörðun um aukna gjaldfærslu lausafjármuna sem og rannsóknarkostnaðar.
Eigið fé samstæðunnar er eins og áður segir tæpir 6,3 milljarðar króna og eiginfjárhlutfall 53%. Norðurorka greiddi niður lán á liðnu áru um 650 milljónir króna sem er nokkuð meira en undanfarin ár og munar þar mestu að Fallorka greiddi niður lán að upphæð 250 milljónir króna. Veltufé frá rekstri var rúmlega 1 milljarður króna og handbært fé í árslok 575 milljónir króna. Langtímaskuldir voru í árslok tæplega 4,8 milljarðar króna og höfðu hækkað um 1,6 milljarða króna milli ára að teknu tilliti til verðbreytinga og gengismunar innan ársins. Hér munar mestu um yfirtöku Norðurorku á fráveitu Akureyrarbæjar. Yfirtökuverðið var 2,3 milljarðar króna og kemur yfirtakan á fráveitunni eingöngu fram í efnahagsreikningi félagsins þar sem yfirtakan átti sér stað þann 31. desember 2013.
Fjárfesting Norðurorku í kerfum og nýframkvæmdum voru um 600 milljónir króna, nokkuð minna en áætlað þar sem frestað var byggingu miðlunargeymis í Torfdal ofan Akureyrar. Fjárfestingar þessa árs eru áætlaðar um 605 milljónir króna þar af til fráveitu um 133 milljónir króna. Á næstu árum liggja fyrir stór fjárfestingaverkefni sem félagið þarf að takast á við svo sem bygging hreinsimannvirkis fyrir fráveitu sem og stórverkefni dótturfélagsins Fallorku, bygging nýrrar Glerárvirkjunar.
Í ljósi baráttu um verðbólgumarkmið ákvað stjórn félagsins um liðin áramót, að hækka eingöngu notkunargjöld neysluvatns en að notkunargjöld annarra veitna yrðu óbreyttar. Norðurorka stendur mjög vel að vígi hvað verðlagningu varðar og hefur áður bent á að verð raforkudreifingar og heita vatnsins hefur lækkað mjög að raungildi undangengin ár.
Norðurorka hefur með yfirtöku á fráveitu Akureyrarbæjar tekið að sér, fyrir hönd íbúa og eigenda, það stóra verkefni að fráveitan svari til krafna umhverfis- og mengunarvarnarlöggjafar. Miklir hagsmunir eru í húfi hjá okkur sem búum innst við langan fjörð. Á Akureyri eru stór matvælafyrirtæki, mikil ferðamennska og að sjálfsögðu náttúran og íbúarnir sjálfir.
Verð á þjónustu og vörum fyrirtækisins skiptir almenning miklu og er einn af þeim þáttum sem ráða íbúaþróun sem og tækifærum viðskipatvina okkar. Rekstur félagsins og verkefna þess fyrir íbúana, endurspegla verðskrá þess á hverjum tíma. Verkefni framtíðarinnar eru stór og mikil sem og von okkar að verðskrár fyrirtækisins verði áfram með þeim hagstæðustu litið til samanburðar við sambærilega rekstur.
Í stjórn Norðurorku voru kjörin, Ásdís Elva Rögnvaldsdóttir, Edward Hákon Huijbens, Geir Kristinn Aðalsteinsson, Halla Björk Reynisdóttir og Njáll Trausti Friðbertsson.
Í varastjórn voru kjörnir, Helgi Snæbjarnarson, Inda Björk Gunnarsdóttir, Kristín Sigfúsdóttir, Sigurður Hermannsson og Víðir Benediktsson.
Opnunartími Norðurorku
Opið virka daga kl. 8-12 og 13-15