Aðalfundur Norðurorku hf. var haldinn í dag 9. mars og var dagskrá í samræmi við samþykktir félagsins.
Fundarstjóri var kjörinn Jón Hrói Finnsson sveitarstjóri í Svalbarðsstrandarhreppi og fundarritari Berghildur Ása Ólafsdóttir þjónustufulltrúi hjá Norðurorku.
Geir Kristinn Aðalsteinsson stjórnarformaður Norðurorku hf. gerði grein fyrir rekstri félagsins á liðnu ári og helstu framkvæmdum. Fram kom í máli Geirs að staða Norðurorku er mjög sterk. Eigið fé samtæðunnar er tæpir 5,2 milljarðar og eigiðfjárhlutfall rúmlega 55%. Hagnaður á liðnu ári nam rúmlega 473 milljónum króna. Fram kom í máli Geirs að stjórn Norðurorku hf. hefði markað þá stefnu að viðskiptavinir félagsins nytu góðs af sterkri stöðu þess. Þetta birtist fyrst og fremst í því að verðskrárbreytingum er haldið í lágmarki. Sagði hann Norðurorku hf. standa mjög vel að vígi að þessu leyti. Raunverð raforkudreifingar hefur farið lækkandi og sé nú það lægsta á landinu. Þá hafi Norðurorka náð þeim árangri að verð heita vatnsins hefur lækkað mjög undangengin ár og nú liggur fyrir sú ánægjulega niðurstaða að meðalnotkun á Akureyri sé í fyrsta skipti í sögunni ódýrari hjá Norðurorku heldur en Orkuveitu Reykjavíkur. Þá vakti Geir athygli á góðum árangri Norðurorku í gæðamálum og gerði grein fyrir því að fyrirtækið hefði fyrst orkufyrirtækja fengið heimild Neytendastofu til reksturs innra eftirlitskerfis fyrir alla sölumæla fyrirtækisins, þ.e. rafmagns og heits og kalts vatns, sem væri hluti af gæðakerfi fyrirtæksins.
Geir þakkaði mjög gott samstarf við forstjóra Norðurorku hf. Ágúst Torfa og sagði mikla eftirsjá af honum, en fram kom að hann hefur sagt stöðu sinni lausri og heldur til nýrra starfa sem forstjóri Jarðborana hf. Þá þakkaði Geir Franz Árnasyni fyrrverandi forstjóra Norðurorku hf. fyrir frábært og fórnfúst starf fyrir Norðurorku hf. og forvera þess Hita- og vatnsveitu Akureyrar.
Að lokum þakkaði hann stjórnarmönnum öllum og starfsfólki Norðurorku hf. farsæl og árangursrík störf á liðnu ári. Færði síðan hluthöfum bestu þakkir fyrir ánægjulega samvinnu.
Ágúst Torfi Hauksson forstjóri fór yfir ársreikning félagsins og gerði grein fyrir skýrslu og yfirlýsingu stjórnar og forstjóra og áritun löggilts endurskoðanda. Hann fór yfir helstu stærðir í rekstrarreikningi og efnahagsreikningi fyrirtækisins. Þá gerði hann grein fyrir tillögu stjórnar um að greiða 15% arð til hluthafa eða sem nemur tæplega 127 milljónum króna. Ágúst Torfi þakkaði mjög gott samstarf við stjórn félagsins og sagði það hafa verið mjög erfiða ákvörðun að yfirgefa Norðurorku eftir svo stuttan tíma og hverfa til nýrra starfa. Jafnframt þakkaði hann samstarfsfólki sínu hjá Norðurorku hf. einstaklega góða viðkynningu og samstarf sem eftirsjá væri af.
Ársreikningur félagsins var samþykktur og þar með tillaga um greiðslu arðs til hluthafa.
Í stjórn félagsins voru kjörin, Ásdís Elva Rögnvaldsdóttir, Edward Hákon Huijbens, Geir Kristinn Aðalsteinsson, Halla Björk Reynisdóttir og Njáll Trausti Friðbertsson.
Í varastjórn voru kjörnir Haraldur Helgason, Helgi Snæbjarnarson, Inda Björk Gunnarsdóttir, Kristín Sigfúsdóttir og Sigurður Hermannsson.
Ársskýrsla Norðurorku hf. var lögð fram á fundinum en hún skiptist í eftirfarandi hluta.
(1) ÁVARP STJÓRNARFORMANNS
(2) STJÓRN OG SKIPURIT
(3) REKSTUR 2011 - YFIRLIT FORSTJÓRA
(4) LYKILSTÆRÐIR - HITAVEITA
(5) LYKILSTÆRÐIR - RAFVEITA
(6) LYKILSTÆRÐIR - VATNSVEITA
(7) PUNKTAR ÚR SÖGU JARÐHITAVINNSLU Í ÓLAFSFIRÐI OG FNJÓSKADAL
(10) ÁRSREIKNINGUR 2011
(11) LJÓÐASAMKEPPNI NORÐURORKU 2011
Opnunartími Norðurorku
Opið virka daga kl. 8-12 og 13-15