Aðalfundur Norðurorku hf. var haldinn í dag 1. apríl 2016.
Rekstur Norðurorku gekk vel á árinu 2015. Ársvelta samstæðunnar var tæplega 3,3 milljarðar króna. Hagnaður ársins var 1.590 milljónir króna eftir skatta og eigið fé tæplega 8,1 milljarðar króna. Á aðalfundi í dag var ákveðið að greiða 35% arð til hluthafa eða um 296 milljónir króna. Samstæðureikningur samanstendur af rekstri Norðurorku og dótturfélagsins Fallorku ehf. auk áhrifa frá hlutdeildarfélögunum Tengi hf. og Norak ehf. en rekstur þeirra allra gekk vel á árinu.
Grunnrekstur Norðurorku var nokkuð umfram áætlanir, en fjármagnsliðir voru félaginu miklu mun hagstæðari en áætlun gerði ráð fyrir. Skýringin á hagstæðum fjármagnsliðum liggur í því að Landsvirkjun greiddi upp lánssamning sem gerður var þegar Norðurorka seldi hlut sinn í Þeistareykjum ehf. árið 2009. Kaupsamningurinn gerði ráð fyrir greiðslu í peningum, greiðslu með hefðbundnu skuldabréfi og síðan greiðslu með skilyrtum lánssamningi. Skilyrðið laut að því að þessi hluti kaupverðsins kæmi því aðeins til greiðslu að Þeistareykjasvæðið yrði virkjað og nýtt fyrir ákveðin tímamörk. Að mati Landsvirkjunar voru skilyrðin komin fram og því nýtti félagið sér uppgreiðsluákvæði samningsins sem fól í sér greiðslu að fjárhæð 950 milljónir króna.
Norðurorka hafði hins vegar ekki fært þennan lánssamning til tekna í bókum félagsins sökum óvissu um nýtingu svæðisins og hefur þess verið getið í skýringum með ársreikningum liðinna ára. Samhliða uppgreiðslu lánssamningsins ákvað Landsvirkjun einnig að nýta heimildir til uppgreiðslu framangreinds skuldabréfs og jókst lausafé Norðurorku þannig umtalsvert. Framangreind uppgjör hafa eðli málsins samkvæmt mjög jákvæð áhrif á rekstur og efnahag Norðurorku og ljóst að fjármögnun Norðurorku verður til muna léttari næstu ár og verulega dregur úr lánsfjárþörf vegna nýrra framkvæmda.
Eigið fé samstæðunnar er eins og áður segir tæpir 8,1 milljarðar króna og eiginfjárhlutfall 61,9%. Norðurorka greiddi niður lán á liðnu ári um 382 milljónir króna. Stærstur hluti niðurgreiðslunnar er vegna lána í evrum. Veltufé frá rekstri var tæplega 1,4 milljarður króna og handbært fé í árslok tæplega 2,2 milljarðar króna. Langtímaskuldir í árslok voru tæplega 4,2 milljarðar króna og lækkuðu um 232 milljónir króna milli ára. Fjárfesting Norðurorku í endurbótum á kerfum og nýframkvæmdum var um 814 milljónir króna sem er ívið minna en áætlað var þar sem nokkrum verkefnum var frestað, en á móti komu einnig ný verkefni utan áætlunar. Fjárfestingar árið 2016 eru áætlaðar 854 milljónir króna, hitaveita 226 milljónir, fráveita 365 milljónir, vatnsveita 97 milljónir, rafveita 99 milljónir og til annarra rekstrarþátta 67 milljónir króna.
Mörg stór verkefni eru á áætlun næstu árin, einkum í fráveitu og hitaveitu. Í undirbúningi er bygging hreinsistöðvar fráveitu við Sandgerðisbót sem áætlað er að verði lokið árið 2018. Unnið er að aukinni orkuöflun í hitaveitu með borun nýrrar holu á svæðinu við Botn og Hrafnagil en auk þess farið að huga að aukinni flutningsgetu frá vinnslusvæðinu á Arnarnesi við Hjalteyri með því að leggja þaðan viðbótar aðveitu til Akureyrar. Loks ber að nefna framkvæmdir dótturfélagsins Fallorku við byggingu Glerárvirkjunar II.
Þrátt fyrir að okkar bíði stór og mikil verkefni í framtíðinni er það von okkar að verðskrár fyrirtækisins verði áfram með þeim hagstæðustu þegar litið er til fyrirtækja í sambærilegum rekstri. Sem samfélagi og einstaklingum er okkur hins vegar hollt að horfa til þeirrar staðreyndar að auðlindir okkar í heitu og köldu vatni eru ekki óþrjótandi. Mikið fjármagn þarf til fjárfestinga í kerfum til þess að auka neysluvatn og orkumátt hitaveitunnar. Sóun eykur og hraðar fjárfestingaþörf í kerfum og innviðum sem aftur kemur fram í verðskrá félagsins. Því er mikilvægt að halda til haga þeim tækifærum sem felast í því að fara vel með og forðast sóun á auðlindunum.
Í stjórn Norðurorku voru kjörin Edward Hákon Huijbens, Friðbjörg Jóhanna Sigurjónsdóttir, Geir Kristinn Aðalsteinsson, Ingibjörg Ólöf Isaksen og Njáll Trausti Friðbertsson.
Í varastjórn voru kjörin, Eva Hrund Einarsdóttir, Jóhann Jónsson, Óskar Ingi Sigurðsson, Margrét Kristín Helgadóttir og Matthías Rögnvaldsson.
Opnunartími Norðurorku
Opið virka daga kl. 8-12 og 13-15