Aðalfundur og ársfundur Norðurorku hf. verða haldnir í Menningarhúsinu Hofi föstudaginn 1. apríl n.k.
Aðalfundur Norðurorku hf. hefst kl. 14:00 og fara þar fram hefðbundin aðalfundarstörf s.s. kynning á skýrslu stjórnar, kynning og afgreiðsla á reikningum félagsins, kosning stjórnar og ákvörðun um greiðslu arðs.
Ársfundur Norðurorku hf. hefst kl. 15:00. Segja má að tvö meginþemu séu á dagskránni þ.e. orkuöflun í nærumhverfinu og umhverfismál, en vissulega tengjast þessi mál mikið saman.
Orkuöflun í nærumhverfinu hefur marga kosti. Þar getur bæði verið um hefðbundna orkukosti að ræða en einnig nýjar leiðir þar sem svonefndir hliðarstraumar eru nýttir til hins ýtrasta.
Umhverfismál hafa margar hliðar þar sem horfa þarf jafnt til upphafs og endis og eru fráveitumál skýrt dæmi um það. Þá er mikilvægt að fyrirtæki taki umhverfismálin inn í stefnumótun sína og samþætti þau öllum rekstri sínum.
Eftirtaldir munu flytja erindi.
Andri Teitsson framkvæmdastjóri Fallorku ehf. segir okkur frá undirbúningi nýrrar virkjunar í Glerá og þeim áskorunum og tækifærum sem fylgja virkjun fallvatns nánast inn í miðju bæjarfélagi.
Björn Halldórsson framkvæmdastjóri Sorpu fjallar um stöðu metanvinnslu á Íslandi og þá framtíðarsýn sem Sorpa hefur sett fram um nýtingu hliðarstrauma í meðhöndlun úrgangs.
Helgi Jóhannesson forstjóri Norðurorku segir okkur frá undirbúningi nýrrar hreinsistöðvar fráveitu í Sandgerðisbót á Akureyri. Hann fjallar um umhverfismat sem verkefnið er að fara í gegnum og vöktunaráætlun sem verið er að setja upp fyrir viðtakann, þ.e. Eyjafjörð.
Stefán Gíslason framkvæmdastjóri Environice fjallar um stefnumótun umhverfismála hjá fyrirtækjum. Stefán er ráðgjafi Norðurorku við „græna stefnumótun“ sem verið er að vinna að þessi misserin. Þar er bæði horft inn á við en einnig út á við og þá með tilliti til þátttöku Norðurorku í þróunarverkefnum þar sem sjálfbær nýting og umhverfisvernd eru sett á oddinn.
Opnunartími Norðurorku
Opið virka daga kl. 8-12 og 13-15