Þann 17. september nk. verður efnt til afmælisdagskrár í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri í tilefni af því að hundrað ár eru í þessum mánuði liðin frá því að Rafveita Akureyrar hóf framleiðslu og dreifingu á rafmagni á Akureyri. Þar verða m.a. fluttir áhugaverðir fyrirlestrar um ýmislegt er lýtur að raforkumálum, t.d. orkuskipti, rafbílavæðingu og hleðslustöðvar.
Samkvæmt nýjustu tölum lætur nærri að um þrjú þúsund rafbílar séu á Akureyri og þeim mun vafalaust fjölga hratt á næstu misserum og árum, sem kallar á fjölgun hleðslustöðva við verslunar- og þjónustufyrirtæki, vinnustaði og í heimahúsum. Arnaldur B. Magnússon, þjónustustjóri Norðurorku, segir að fyrirtækið fái töluvert af fyrirspurnum um uppsetningu hleðslustöðva, einkum frá húsfélögum, enda geti flækjustigið verið töluvert í fjölbýlishúsum.
„Í mörgum tilfellum hefur Norðurorka ekki vitneskju um uppsetningu hleðslustöðva, t.d. ef um er að ræða vinnustaði eða sérbýli. Ef hins vegar íbúar í fjölbýlishúsum hafa í hyggju að setja upp hleðslustöðvar vakna oft spurningar sem í mörgum tilfellum er beint til okkar. Í nýjustu byggingarreglugerð eru kröfur um að gert sé ráð fyrir uppsetningu hleðslustöðva og það á því við um t.d. nýjasta hverfið á Akureyri, Holtahverfi. Ef hins vegar er horft til eldri hverfa í bænum er það sama ekki upp á teningnum, enda var á byggingartíma þeirra ekki gert ráð fyrir hleðslustöðvum. Fyrir viðskiptavini Norðurorku sem hafa ekki þekkingu á raflögnum og búnaði eru aðgengilegar upplýsingar á heimasíðu fyrirtækisins, auk aðgerðalista fyrir fjölbýlishús. Hafi eigendur þekkingu á raflögnum og búnaði geta þeir skoðað sína rafmagnstöflu og lesið út úr þeim nauðsynlegar upplýsingar til uppsetningar hleðslustöðva. Mælt er þó með því að leitað sé ráðgjafar fagaðila til að tryggja að öllum reglum sé fylgt. Einnig geta húseigendur snúið sér til okkar í Norðurorku og fengið upplýsingar, áður en lengra er haldið. Og við mælum eindregið með því að fólk hafi samband við okkur ef það er í einhverjum vafa um hvernig standa beri að málum.
Á hundrað ára afmæli dreifingar rafmagns á Akureyri er vert að hafa í huga að dreifingarkerfið í bænum er frá ýmsum tímum. Ef horft er til Hagahverfis, nýjasta íbúðarhverfisins sem er nánast fullbyggt, er staðallinn og forsendurnar töluvert aðrar en í t.d. Gilja- eða Gerðahverfi. Í bænum eru tvö spennukerfi (sjá hér) og því þarf fólk að hafa um það vitneskju áður en það kaupir hleðslustöð hvaða spennukerfi húsnæði þeirra tilheyrir. Með öðrum orðum er ekki þar með sagt að allir bæjarbúar geti keypt sér hleðslustöð af stærstu gerð fyrir sitt einbýli, raðhús eða fjölbýli, það ræðst af spennukerfinu sem viðkomandi hefur aðgang að. Það er því ástæða til að undirstrika mikilvægi þess að fólk kynni sér þetta áður en hleðslustöð er keypt. Upplýsingar má finna á heimasíðu okkar og einnig er hægt að hafa samband við okkur eða leita til fagaðila,“ segir Arnaldur.
Eitt er að setja upp hleðslustöðvar en annað er að nýta þær á skynsamlegan hátt. Arnaldur segir mikilvægt að fólk nýti vel það rafmagn sem til er með því að hlaða bíla sína utan álagstíma, fyrst og fremst á nóttunni. Það sé réttasta nýtingin á rafmagninu og verði til framtíðar jafnframt sú ódýrasta. Hann segir að með því að hlaða bílana á sama tíma og mesta orkunotkunin er á heimilunum verði óþarfa álag á kerfið sem þýði aukinn kostnað fyrir notendur og kalli á aukna framleiðslu á raforku. Þetta megi koma í veg fyrir með því að nýta rafmagn með skynsamlegum hætti, lykilatriði sé að dreifa álaginu allan sólarhringinn. Þá segir Arnaldur mikilvægt að hafa í huga að unnið sé að uppbyggingu innviða fyrir rafmagnsbíla og eftir því sem þeim fjölgi muni afreiðslustöðvar olíufélaganna færa sig í auknum mæli í þjónustu við rafbíla.
Eins og áður segir þá stendur Norðurorka fyrir sérstakri afmælisdagskrá í Hofi laugardaginn 17. september kl. 13-17. Í Hömrum hefjast kl. 14.00 áhugaverðir fyrirlestrar um ýmislegt er lýtur að raforkumálum, m.a. orkuskiptum, rafbílavæðingu og hleðslustöðvum. Í opna rýminu í Hofi verður ljósmyndasýning og ýmislegt annað verður til sýnis sem minnir á söguna svo sem gamlir munir frá Rafveitunni. Starfsfólk Norðurorku verður á staðnum til þess að upplýsa og svara spurningum sem brenna á fólki, ekki síst hvað varðar hleðslustöðvar, dreifikerfi og álagsstýringu.
Afmælisdagskráin í Hofi verður öllum opin.
Opnunartími Norðurorku
Opið virka daga kl. 8-12 og 13-15