Árið 2024 var viðburðaríkt ár hjá Norðurorku. Verkefnin voru fjölbreytt og endurspegla vel það stóra hlutverk sem Norðurorka gegnir í samfélaginu. Hér hefur verið tekið saman yfirlit yfir helstu sigra og afrek sem stóðu upp úr á árinu 2024.
Vitundarvakning um heitavatnsnotkun
Norðurorka hélt áfram með vitundarvakningu um ábyrga heitavatnsnotkun í upphafi ársins 2024 undir yfirskriftinni „Hitamál“. Markmiðið var að vekja athygli íbúa á starfssvæði Norðurorku á alvarlegri stöðu hitaveitu, hvetja þá til umhugsunar um eigin notkun á heitu vatni og benda á leiðir til ábyrgrar notkunar. Auglýsingar voru birtar á samfélagsmiðlum, vefmiðlum, í prentmiðlum, útvarpi og á skiltum. Norðurorka stóð einnig fyrir sýningu á Amtsbókasafninu í janúar þar sem gestum safnsins gafst tækifæri á að skoða upplýsingaspjöld með boðskap vitundarvakningarinnar. Myndband, sem framleitt var í tengslum við vitundarvakninguna, var til sýninga m.a. á útisvæðinu í Sundlaug Akureyrar og er þar aftur til sýnis í vetur.
Viðurkenning fyrir góðan árangur í öryggis- og umhverfismálum
Forvarnaráðstefna VÍS var haldin í fjórtánda sinn í Hörpu í febrúar. Á ráðstefnunni sem haldin er árlega var fjallað um öryggismál og forvarnir fyrirtækja og stofnana frá öllum hliðum. Rúsínan í pylsuendanum voru Forvarnaverðlaun VÍS en þau hljóta fyrirtæki sem þykja skara fram úr í öryggismálum og eru öðrum fyrirtækjum góð fyrirmynd. Í flokknum stærri fyrirtæki var Norðurorka í hópi þeirra þriggja fyrirtækja sem tilnefnd voru til Forvarnarverðlauna VÍS og hlaut viðurkenningu fyrir góðan árangur í öryggis- og umhverfismálum.
Við erum afar stolt og glöð að tilheyra þeim hópi fyrirtækja sem leggur áherslu á öryggi í allri sinni starfsemi og munum halda ótrauð áfram á sömu braut. Vegna tilnefningarinnar útbjó VÍS myndband þar sem farið er yfir þær ýmsu hliðar öryggismála sem hugað er að í starfseminni.
Fyrsta mynd er frá forvarnarráðstefnu VÍS sem fram fór í Hörpu. Önnur og þriðja mynd sýna frá jarðhitaleit í Eyjafirði.
Neysluvatni Akureyringa og nærsveitunga „bjargað“
Alvarlegt rútuslys átti sér stað við Fagranes í Öxnadal þann 14. júní. Viðbúnaður viðbragðsaðila var mikill og aðkoma starfsfólks Norðurorku einnig þar sem að slysið átti sér stað innan vatnsverndarsvæðis. Gripið var til fyrirbyggjandi aðgerða til að koma í veg fyrir að olía eða önnur óæskileg efni kæmust í gegnum jarðlögin, í neysluvatn Akureyringa og nærsveitunga.
Neysluvatnsdæling frá vatnstökusvæðinu á Vöglum var stöðvuð af öryggisástæðum og mengunarvarnabúnaði komið fyrir í og við ána. Árkvísl sem liggur næst veginum var stífluð ofan við slysstað til að stöðva vatnsrennsli við mengaðan árbakkann. Þegar mengaður jarðvegur var grafinn upp safnaðist fyrir olía í holunni. Gripið var til þess ráðs að brenna olíuna til að eyða henni á staðnum og fyrirbyggja að hún færi lengra. Seinna kom dælubíll á staðinn og var olíunni þá dælt upp.
Skjót og rétt viðbrögð skipta sköpum við aðstæður sem þessar og sem betur fer tókst að koma í veg fyrir að vatn spilltist. Ljóst er að þetta mengunarslys er það umfangsmesta sem orðið hefur á vatnsverndarsvæði Norðurorku.
Vatnsverndarsvæðið á Vöglum er annað tveggja vatnsverndarsvæða Akureyringa.
Hér má finna frekari upplýsingar um vatnsverndar- og vatnstökusvæði Norðurorku: Vatnsverndarsvæði | Norðurorka
Umhverfisverðlaun Terra á landsbyggðinni
Í apríl hlaut Norðurorka umhverfisverðlaun Terra á landsbyggðinni. Norðurorka leggur mikla áherslu á umhverfismál í allri sinni starfsemi. Helstu aðgerðir fyrirtækisins til að draga úr kolefnislosun eru meðal annars flokkun sorps og þar höfum við nýtt okkur þær lausnir sem Terra hefur upp á að bjóða. Norðurorka vill vera í fararbroddi í umhverfismálum með gildi fyrirtækisins; virðing – fagmennska – traust, að leiðarljósi. Umhverfisverðlaun Terra eru okkur sannarlega hvatning til að halda áfram á sömu braut.
Fyrri mynd sýnir frá sýningu á upplýsingaspjöldum um stöðu hitaveitu á Amtsbókasafninu á Akureyri. Seinni mynd sýnir frá afhendingu umhverfisverðlauna Terra á landsbyggðinni.
Vinnu lokið við nýja Hjalteyrarlögn
Undanfarin ár hafa staðið yfir miklar framkvæmdir við lagningu nýrrar aðveituæðar frá vinnslusvæðinu á Hjalteyri til Akureyrar. Í júní var stórum áfanga náð því þá lauk vinnu við nýju aðveituæðina, sem oft er nefnd Hjalteyrarlögn. Hún flytur nú Akureyringum og nærsveitungum heitt vatn til viðbótar við eldri lögn.
Flutningsgeta eldri aðveituæðar frá Hjalteyri var takmarkandi þáttur í nýtingu vinnslusvæðisins frá upphafi þar sem eldri lögn (300 mm) bar ekki allt það heita vatn sem bærinn þurfti á að halda á álagstímum. Því var farið í að leggja nýja aðveituæð (500 mm) frá Hjalteyri til Akureyrar og er hún hrein viðbót þar sem að eldri lögnin verður nýtt áfram.
Nú stendur yfir jarðhitaleit á nýju svæði við Ytri Haga (norðan við Hjalteyri), þar sem rannsóknir benda til þess að svæðið sé drjúgt. Nýja Hjalteyrarlögnin mun því síðar nýtast til að flytja heitt vatn þaðan í framtíðinni.
Endurnýjuð fráveitulögn frá Mjólkursamsölunni
Í sumar fór bílastæði við Furulund að síga og kom þá í ljós að orsökin væri sprungin frárennslislögn frá Mjólkursamsölunni. Í kjölfarið var farið í það verkefni að endurnýja gömlu lögnina. Verkefnið var vandasamt þar sem að lögnin var stór og um hana fóru daglega um 1000 m³ (eða 1.000.000 lítrar). Ekki var mögulegt fyrir MS að stöðva framleiðsluna á meðan framkvæmdum stóð en með góðri skipulagningu tókst verkefnið afar vel.
Norðurorka hlaut Jafnvægisvogina í þriðja sinn
Jafnvægisvogin er hreyfiaflsverkefni Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA) sem hefur að markmiði að auka jafnvægi milli kynja í efsta lagi stjórnunar fyrirtækja, stofnana og sveitarfélaga á Íslandi. Við í Norðurorku erum svo sannarlega stolt af því að vera á meðal þeirra fyrirtækja sem hlaut viðurkenningu.
Árið 2024 voru 130 fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög sem hlutu viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar fyrir framlag sitt að settum markmiðum. Viðurkenningarhafar eru þeir sem hafa náð markmiði um 40/60 kynjahlutfall í efsta lagi stjórnenda.
Sjö sitja í framkvæmdaráði Norðurorku, þrjár konur og fjórir karlar.
Nýting glatvarma frá TDK
Sá ánægjulegi áfangi náðist í desember að glatvarmi frá aflþynnuverksmiðju TDK hóf að nýtast inn á kerfi Norðurorku. Heitt vatn sem fæst með þessum hætti jafnast á við eina af öflugustu borholum Norðurorku. Samstarfið við TDK er því mikilvægur þáttur í öflun á heitu vatni og er um að ræða mikla lyftistöng í rekstri hitaveitunnar.
Undanfarin misseri og ár hefur Norðurorka ítrekað vakið athygli á því að hitaveitan sé komin að þolmörkum. Þrátt fyrir þessa kærkomnu viðbót frá TDK, er ljóst að einnig þarf að ráðast í umfangsmiklar og fjárfrekar framkvæmdir á næstu árum til að anna aukinni eftirspurn eftir heitu vatni á starfssvæðinu ásamt því að vinna áfram með notkunarhliðina.
Fyrsta mynd sýnir dæmigerðan hitaveitusnjallmæli. Önnur mynd var tekin í tilefni af virkjun glatvarma frá TDK. Þriðja mynd sýnir frá gerð Hjalteyrarlagnarinnar sem lokið var við á árinu 2024.
Snjallmælavæðing í fullum gangi
Á árinu 2024 lauk Norðurorka við uppsetningu á innsöfnunarkerfi fyrir hitaveitu- og rafmagnssnjallmæla frá Kamstrup en nokkur vinna er eftir í að skipta út mælum hjá viðskiptavinum.
Á árinu 2025 munum við halda áfram mælaskiptum sem og að kynna fyrir viðskiptavinum þá fjölmörgu möguleika sem að snjallmælavæðingunni fylgja.
Fjölgun kvenna á framkvæmdasviði
Konum á framkvæmdasviði fjölgaði um 100% á árinu 2024 og eru þær nú samtals fjórar. Um er að ræða rafvirkja, járniðnaðarmann, fulltrúa á skrifstofu framkvæmdasviðs og starfsmann framkvæmdaþjónustu. Við fögnum þessari auknu breidd, enda er það opinber stefna Norðurorku að jafna hlutföll kynja í öllum einingum fyrirtæksins.
Fjóla Sigrún Árnadóttir rafvirki er ein þeirra fjögurra kvenna sem starfa á framkvæmdasviði. Aðspurð um það hvernig sé að starfa á fremur karllægu sviði segir Fjóla að Norðurorka sé einn sá besti vinnustaður sem hún hafi unnið hjá og að hún finni ekki til vanmáttar. „Ég hef ekki fundið fyrir neinu svona ég er kona þess vegna get ég þetta ekki.“ Hvað vill Fjóla segja við konur þarna úti sem vilja sækja um störf sem áður töldust sem karlastörf en eru e.t.v. hikandi? „Bara kýla á þetta! Ef einhver kemur með neikvæðar athugasemdir þá er bara um að gera að hundsa þær.“
Á fyrstu mynd er Fjóla Sigrún Árnadóttir rafvirki við störf. Önnur mynd sýnir fráveiturör í Móahverfi. Þriðja mynd var tekin við þverun á RA2 streng Landsnets, einnig í Móahverfi.
Framkvæmdir í Móahverfi
Árið 2024 var erilsamt í framkvæmdum í Móahverfi. Lagt var víða fyrir fráveitu, vatnsveitu, hitaveitu og rafstrengjum auk þess sem dreifistöð 073 var sett upp að vori.
Eitt flóknasta verkefni ársins 2024 var þverun á RA2 streng Landsnets sem er heimtaug aflþynnuverksmiðjunnar TDK. Strengurinn liggur meðfram Móahverfi og þurfti að þvera hann með Vaglalögnum og 1400 mm regnvatnslögn ásamt öðrum lögnum Norðurorku. Ekki var unnt að taka strauminn af strengnum því um er að ræða einu tengingu TDK við rafmagn. Strengur sem þessi flytur mikið rafmagn og því var afar mikilvægt að fara að öllu með gát.
Mikil vinna fór í að grafa meðfram Borgarbrautinni sem liggur í gegnum Móahverfið. Þar þurfti að grafa djúpt til að koma fyrir 1400 mm fráveitulögn og ná rennsli til norðurs. Verkefnið reyndist tímafrekt þar sem að sprengja þurfti klöpp til að skapa pláss fyrir lagnir.
Fleiri áfangar í Móahverfi:
Framkvæmdir á Hrafnagili
Miklar framkvæmdir stóðu yfir í hita- og vatnsveitu á Hrafnagili á liðnu ári. Lagt var í nýja götu og í ný hús sem eru að byggjast upp við gömlu Eyjafjarðarbrautina sem í dag kallast Hrafnatröð. Einnig hófst vinna við að leggja nýja stofna fyrir hita- og vatnsveitu í gegnum Hrafnagilshverfið sem er hluti af undirbúningi vegna nýs hverfis sem til stendur að byggja norðan Hrafnagils. Í leiðinni var tækifærið nýtt til lagfæringa en í því fólst meðal annars að afleggja gamlan brunn og einfalda lagnaleiðir.
Jarðhitaleit í Eyjafirði
Jarðhitakerfið á Hjalteyri hefur verið stærsta vinnslusvæði hitaveitu Norðurorku síðastliðna tvo áratugi og hefur síðustu ár séð Akureyringum og nærsveitungum fyrir um það bil 60% af því heita vatni sem þeir fá. Líkt og fram hefur komið í fréttum að undanförnu lítur út fyrir að vinnslusvæðið á Hjalteyri sé nú fullnýtt nema takist að vinna bug á innrennsli inn í kerfið.
Svo að mæta megi aukinni orkuþörf í Eyjafirði og draga um leið úr vinnslu á Hjalteyri hefur Norðurorka meðal annars sett af stað umfangsmikið jarðhitaleitarátak á Eyjafjarðarsvæðinu. Hluti átaksins felst í að leita vísbendinga um ný og áður óþekkt jarðhitakerfi og hafa slík ummerki t.d. fundist í Þorvaldsdal en einnig felur átakið í sér nánari leit á svæðum sem þegar eru nýtt með það að markmiði að auka þar orkuvinnslu. Þar ber helst að nefna jarðhitasvæðin á Ytri-Haga og við Botn í Eyjafjarðarsveit og er borun djúprar vinnsluholu á fyrrnefnda svæðinu fyrirhuguð á árinu 2025. Rannsóknir við Botn eru styttra á veg komnar en talið er að meginuppstreymi jarðhitakerfisins sé undir um 100 m þykkri setfyllu sem hylur botn Eyjafjarðardals. Jarðhitaleit við slíkar aðstæður er vandasöm og dýr og á það bæði við um notkun mælinga frá yfirborði og boranir með leitarholum (hitastigulsholum) og því hefur ekki verið lagt í þá jarðhitaleit fyrr en nú. Í apríl í fyrra hófust tilraunir til þess að bora í setfylluna og hefur árangurinn verið framar vonum.
Á árinu boraði Finnur ehf. sjö rannsóknarholur fyrir Norðurorku á bökkunum austan Eyjafjarðarár til móts við Botn. Með hitamælingum hefur fengist skýrari mynd en áður af hitastigulsfrávikinu á svæðinu. Enn er þó verið að vinna úr þeim gögnum sem söfnuðust í þessum borunum og fyrirhugaðar eru frekari rannsóknir svo að undirbyggja megi sem best staðsetningu nýrrar vinnsluholu á svæðinu.
Opnunartími Norðurorku
Opið virka daga kl. 8-12 og 13-15