Ágætt jafnvægi er nú komið á vatnsbúskap vatnsveitu Norðurorku á Akureyri og ástandið þokkalegt á Svalbarðsströnd.
Eins og fram hefur komið brugðust notendur á Akureyri mjög skjótt við þegar þeir voru í síðustu viku beðnir að spara kalda vatnið þar sem birgðastaða í miðlunargeymum fór niður fyrir öryggismörk. Er ástæða til að ítreka þakkir til viðskiptavina fyrir þessi góðu viðbrögð.
Eins og staðan er í dag þá er ekki ástæða til þess að óttast vatnsskort en þó ber að hafa í huga að vatnsgæfni aðal vatnslinda Norðurorku í Hlíðarfjalli (Hesjuvallalindir) og í Glerárdal (Sellandslindir) er mun minni en í meðalári og því er þeim tilmælum beint til viðskiptavina að fara almennt sparlega með vatnið. Nægt vatn er á Vöglum í Hörgárdal en því vatni þarf hins vegar að dæla í bæinn með ærnum tilkostnaði og því full ástæða til þess að komast hjá miklum dælingum í lengstu lög.
Einnig ber að hafa í huga að þessa dagana er unnið að endurbótum á hluta af Sellandslindum og því er ekki að koma eins mikið vatn þaðan eins og annars væri.
Hér að neðan má sjá nokkrar myndir frá vinnu við Sellandslindirnar.
Opnunartími Norðurorku
Opið virka daga kl. 8-12 og 13-15