Norðurorka tók við fráveitumálum frá Akureyrarbæ áramótin 2013/2014. Í því felst umsjón með lagnakerfinu sem tekur við regnvatni og öllu sem fer í gegnum vaska, salerni, baðkör og þvottavélar heimila svo eitthvað sé nefnt.
Þá voru heimildir um lagnir til í tveimur teikniskrám, annars vegar skrá sem hafði að geyma upplýsingar um innmældar lagnir (málbandsmælt) og hinsvegar skrá með upplýsingum um líklega lega lagna. Skráin um líklega legu lagna var byggð á upplýsingum af rissblöðum eða munnlegum heimildum. Einnig fylgdi gagnagrunnur með góðum upplýsingum um fráveitulagnir í nýrri hverfum eins og Giljahverfi og Naustahverfi.
Nú hefur þeim ánægjulega áfanga verið náð að búið er að færa allar upplýsingar í heildstæðan gagnagrunn, sem auðveldar aðgengi og umsýslu á allan hátt. Upplýsingar gagnagrunnsins eru aðgengilegar á kortasjá Norðurorku hf. sem er að finna á heimasíðu fyrirtækisins.
Lagnir í eldri hverfum bæjarins eru merktar með rauðu, eins og sést á meðfylgjandi mynd frá Kringlumýri. Þetta er vegna þess að í gamla daga var bæði regnvatni og skólpi veitt í einu og sömu lögnina.
Í nýrri hverfum eru skólplagnir appelsínugular og regnlagnir bleikar, þar sem regnvatni er veitt sérstaklega stystu leið til sjávar eða í jarðveginn aftur (svokölluð blágræn ofanvatnslausn), en skólp fer sína leið í skólphreinsistöðina í Sandgerðisbót þar sem það er síað áður en það rennur út í sjó 400 metra frá landi.
Gögnin í gagnagrunninum eru mis áreiðanleg. Sumar heimildir eru GPS innmældar en Norðurorka eignaðist sitt fyrsta GPS tæki árið 2000. Aðrar heimildir eru málbandsmældar og einhverjar eftir munnlegum heimildum. Allar heimildir eru betri en engar, en fyrirtækið óskar eftir að fá að mæla inn lagnir ef bæjarbúar eru í framkvæmdum og bæta þannig gæði gagnanna eins og kostur er.
Þær Anna María Sigurðardóttir og Guðlaug Erla Ágústsdóttir á teiknistofunni eru að vonum ánægðar að loknu verki en þær hafa borið hitann og þungann af vinnunni við nýja gagnagrunninn.
Opnunartími Norðurorku
Opið virka daga kl. 8-12 og 13-15