Ársfundur Norðurorku var haldinn miðvikudaginn 9. apríl, í framhaldi af aðalfundi. Á fundinum, sem haldinn var í Menningarhúsinu Hofi, voru flutt ýmis erindi. Hlynur Jóhannsson, stjórnarformaður Norðurorku hf. setti fundinn og bauð gesti velkomna. Af því búnu tók Snorri Finnlaugsson, sveitarstjóri Hörgársveitar við fundarstjórn og kynnti dagskrá fundarins.
Fyrsta erindið var Fráveita - hvað er að frétta? Morten Feldskov Jannerup, fagstjóri fráveitu hjá Norðurorku fór yfir þau verkefni sem fráveitan fæst við nú um stundir og eru þau mun fjölbreyttari en margan kann að gruna. Eftirminnilegt er þegar Morten fór með stef úr titillagi kvikmyndarinnar Ghostbusters (1984) og söng Who you gonna calll? Fráveitan! sem vísun í þau margvíslegu verkefni og útköll sem fráveitan sinnir dag frá degi.
Næsta erindi bar yfirskriftina Nýting glatvarma frá TDK þar sem Stefán H. Steindórsson, sviðsstjóri veitu- og tæknisviðs greindi frá framkvæmdaferlinu og þeim tækifærum sem felast í nýtingu glatvarma. Í kynningu Stefáns kom m.a. fram að hlutfall glatvarmans í áætlaðri orkuvinnslu er um 13% sem jafnast á við vatn til húshitunar fyrir heilt hverfi og því er eftir miklu slægjast.
Norðurorka fagnar 25 ára afmæli sínu í ár. Gunnur Ýr Stefánsdóttir, sviðsstjóri á skrifstofu forstjóra, stiklaði á stóru úr sögu Norðurorku sem varð til við sameiningu Hita- og vatnsveitunnar annarsvegar og Rafveitunnar hinsvegar árið 2000. Norðurorka var síðar gert að hlutafélagi. Á þeim aldarfjórðungi sem liðinn er hefur starfsemin þróast í takt við stækkandi starfssvæði, breyttar opinberar kröfur og tækniframfarir. Grunnstarfssemi Norðurorku er þó enn sú sama, þ.e. að tryggja órofinn rekstur þeirra veitna sem íbúar og fyrirtæki á starfssvæðinu treysta á alla daga, alla daga ársins.
Að loknu kaffihléi flutti Ólafur Róbert Rafnsson, upplýsingaöryggisstjóri UT hjá Norðurorku, erindið Auknar kröfur og áskoranir í net- og upplýsingaöryggismálum. Orku- og veitufyrirtæki eru eftirsóknarverð skotmörk fyrir netglæpi og mikilvægt fyrir öll fyrirtæki sem starfrækja og reka mikilvæga innviði að gæta sérstaklega að vörnum gegn slíkum glæpum.
Sigurveig Árnadóttir, verkefnastjóri rannsókna og viðhalds hjá Norðurorku, flutti erindið Borun tveggja nýrra vinnsluholna fyrir hitaveitu Norðurorku árið 2025. Í erindi sínu sagði hún frá tveimur nýjum vinnsluholum við Ytri-Haga á Árskógsströnd og í Ólafsfirði, sem boraðar verða nú í vor og í sumar, og rannsóknum á báðum svæðum sem Norðurorka hefur staðið fyrir markvisst undanfarin ár í samstarfi við ÍSOR.
Síðasta erindið á dagskránni flutti Hjalti Steinn Gunnarsson, sviðsstjóri framkvæmdasviðs og bar það yfirskriftina Rútuslys á vatnsverndarsvæði - Vatnsvernd í nútímasamfélagi . Í erindi sínu fór Hjalti Steinn yfir þá atburðarás sem fór í gang af hálfu Norðurorku þegar tilkynning barst um rútuslys innan vatnsverndarsvæðis. En mikilvægt var að grípa fljótt og örugglega til aðgerða til að fyrirbyggja að mengunin hefði áhrif á vatnsbúskap Akureyringa og nærsveitunga. Verði mengunarslys innan vatnsverndarsvæðis er lykilatriði að tilkynna það strax því það sem kann að virðast minniháttar óhapp getur gert vatnstökusvæði óstarfhæft til lengri tíma.
Fyrir miðju fundar var eldra starfsfólk heiðrað. Starfsmannavelta er lítil hjá Norðurorku og starfsreynsla mikil og góð. Erla Björg Guðmundsdóttir Valgerðardóttir mannauðsstjóri kallaði upp á svið það starfsfólk sem lætur af störfum hjá fyrirtækinu fyrir aldurs sakir og þakkaði fyrir gifturík störf í þágu þess.
Frá vinstri: Jón Björn Arason, Frosti Frostason, Snæbjörn Þorvaldsson, Herborg Sigfúsdóttir.
Eyþór Björnsson sleit fundinum og þakkaði gestum um leið fyrir komuna.
Myndir: Axel Þórhallsson
Opnunartími Norðurorku
Opið virka daga kl. 8-12 og 13-15