Svalbarðsstrandarveita þjónar svæðinu frá Brúnahlíðarhverfi í Eyjafjarðarsveit og út í Garðsvík í Svalbarðsstrandarhreppi. Veitusvæðið er víðfemt og hæðarmismunur er um það bil 150 metrar. Við þessar aðstæður skapast þrýstifallsvandi á köldum dögum þar sem illa gengur að dæla heitu vatni til húsa í efri byggðum. Íbúar húsa í neðri byggðum njóta góðs af staðsetningu og finna því lítið fyrir álagi á hitaveituna.
Mikilvægt er að allir íbúar svæðisins hjálpist að við að fara vel með heita vatnið á köldum dögum til að draga úr álagi á veituna þannig að ekki komi til alvarlegs heitavatnsskorts þegar kuldatíð ríkir.
Um Svalbarðsstrandarveitu
Vinnsla á heitu vatni í Svalbarðsstrandarhreppi hófst árið 1984 með borholu SE-01. Holan var notuð fyrir hitaveitu Svalbarðseyrar allt til ársins 2003 en þá var lögð stofnlögn frá dælustöðinni á Brunná að Svalbarðseyri og hefur því vatn frá Laugalandi (sem rennur að Brunná) þjónað Svalbarðsstrandarhreppi síðan. Eftir það og þar til nýlega hefur hola SE-01 eingöngu verið notuð fyrir bæinn Svalbarð.
Áætlað er að Svalbarðsstrandarveita fái einnig vatn frá Jódísarstöðum í framtíðinni. Til að það megi verða þarf að endurnýja og svera stofninn. Fyrsti áfangi í þeirri endurnýjun var tekinn í notkun árið 2022, frá Jódísarstöðum að Þverá. Verður þeirri framkvæmd ásamt fleiri úrbótum haldið áfram næstu misseri.
Árið 2022 var borholu SE-01 á Svalbarðseyri bætt inn á kerfi Svalbarðsstrandarveitu og er hún kærkomin búbót. Með lagfæringu á holunni og uppsetningu dælu á toppi hennar hafa afköst aukist. Allt hjálpast þetta að en þó er mikilvægt að unnið sé með notendahliðina samhliða aukinni öflun.
Hvernig sýnum við ábyrga heitavatnsnotkun:
Hitakerfi
Á mínum síðum getur skráður notandi veitu nálgast upplýsingar um árlega heitavatnsnotkun fyrir sitt húsnæði. Þar má einnig sjá hver notkunin er miðað við meðaltal. Eins mælum við með að fá fagfólk til að yfirfara hitakerfi hússins reglulega. Þannig nýtum við orkuna betur og orkureikningurinn lækkar.
Snjóbræðsla
Á síðustu áratugum hefur notkun jarðhita til snjóbræðslu farið vaxandi og nú er svo komið að gert er ráð fyrir snjóbræðslukerfum við flest ný hús, bílastæði og bílaplön á hitaveitusvæðum. Snjóbræðsla getur verið orkufrek, munum því að skrúfa fyrir aukainnspýtingu þegar hennar er ekki þörf. Með nákvæmari stýringu á snjóbræðslunni allt árið um kring næst betri árangur auk þess sem hún veldur minna álagi og orkureikningurinn lækkar.
Heitir pottar
Fátt er betra en að hlamma sér í heitan pott. Þar gildir þó að vera ábyrgur í sinni orkunotkun og sleppa því að fylla á heita pottinn yfir köldustu vetrardagana. Sér í lagi ef aðeins er um að ræða tíu mínútur í heita pottinum, þá er sturtan betri kostur.
Stillingar á ofnum
Stillum ofna á óskahita hvers herbergis. Ofn ætti að vera heitastur efst og kólna eftir því sem neðar dregur. Hyljum ekki ofna með gardínum eða húsgögnum, því þannig hindrum við hitastreymi sem kemur í veg fyrir jafna orkudreifingu í herberginu.
Opnir gluggar
Förum vel með varmann, athugum með þéttingar á gluggum og hurðum og tryggjum að hitakerfið sé að virka rétt. Ef við þurfum að lofta út er betra að hafa glugga vel opinn í tíu mínútur og loka honum svo í stað þess að hafa gluggann opinn allan daginn.
Óþarfa rennsli
Ein dýrmætasta auðlind okkar Íslendinga er heita vatnið. Oft gleymist að þessi orka telst til munaðar víða um heim. Á Íslandi hefur notkun á heitu vatni aukist mikið undanfarin ár og er því áskorun fyrir hitaveitur að anna eftirspurn. Berum virðingu fyrir þeirri auðlind sem jarðhitavatn er og látum það ekki renna að óþörfu.
Opnunartími Norðurorku
Opið virka daga kl. 8-12 og 13-15