Núna á haustdögum hefur verið unnið að frekari vatnsöflun í landi Garðsvíkur. Starfsmenn verktakafyrirtækisins Skútabergs boruðu skáhalt inn í klettana á lindasvæðinu. Strax eftir borun á holunni sem er um 100 metra djúp mældist rennsli úr henni 9 lítrar á sekúndu og hitastig vatnsins var 6,5°C, en hitastig vatnsins úr Garðsvíkurlindum er einmitt heldur hærra en á öðrum lindarsvæðum Norðurorku. Núverandi lindir á svæðinu eru að gefa um 8 - 10 sek. lítra af vatni að meðaltali. Fylgst verður með holunni og látið renna úr henni til að kanna hvort um viðvarandi rennsli verður að ræða þannig að hægt sé að virkja hana fyrir vatnsveitu Norðurorku í Svalbarðsstrandarhreppi.
Eins og fram hefur komið í fréttum hér á heimasíðunni hafa komið upp vandamál á lindarsvæðinu þar sem yfirborðsvatn hefur náð að blandast lindarvatninu og menga það. Lindarsvæðið er mjög bratt en þá er meiri hætta á slíkri yfirborðsmengun. Með borun er vatnið sótt djúpt inn í bergið og síðan komið fyrir röri sem liggur úr berginu og beint inn á vatnsveitukerfið.
Reynist vatnið úr holunni nægilegt og um viðvarandi rennsli er að ræða standa vonir til þess að með þessari framkvæmd sé komin framtíðarlausn á ofangreindum vanda en það mun skýrast næsta vor. Kemur þá einnig til greina að boruð verði viðbótarhola inn í bergið skammt frá núverandi holu.
Opnunartími Norðurorku
Opið virka daga kl. 8-12 og 13-15