Endurnýjun á 50 ára gamalli borholu á Skeggjabrekkudal er lokið með borun niður á 270 metra dýpi. Borað var við hlið eldri holu sem seinni árin hefur verið til vandræða.
Árangurinn framan af virtist ætla að verða mun betri en vænt var, bæði í vatnsmagni og hita, en í lok ofangreindrar dýptar kólnaði vatnið og dró úr magni þegar borinn skar kaldari vatnsæð. Eftir myndun í holunni var talið mögulegt að stífla neðsta hluta hennar til að hefta innstreymi þar á köldu vatni og freista þess að endurheimta aftur heitara vatn úr efri vatnskerfum. Ákveðið var að setja niður í botn holunnar steypta hólka í plaströrum til að reyna að loka kaldari vatnsæðum neðst. Aðgerðin tókst vel og nú gefur holan 16 l/sek af 60°C heitu vatni en í eldri holu var vatnið 54°C og vatnsmagn um 14 l/sek. Það má því búast við því að Ólafsfirðingar fái í framhaldinu heitara vatn inn í hús sín.
Verið er að ganga frá tengingum holunnar inn á veitukerfið og síðan verður gengið frá borsvæði/mannvirkjum að hluta í haust en endanlegur frágangur verður að óbreyttu næsta sumar.
Norðurorka þakkar öllum sem að komu, ekki síst þeim Ingva umsjónarmanni Norðurorku í Ólafsfirði, Magnúsi borstjóra hjá Þórsverk og Bjarna Gautasyni hjá ÍSOR.
Opnunartími Norðurorku
Opið virka daga kl. 8-12 og 13-15