10. jan 2018

Breytingar á verðskrám Norðurorku 1. janúar 2018

Orku- og veitukostnaður á Akureyri hefur um langt skeið verið með því lægsta sem gerist á landinu. Þá sýnir samanburður að verðskrár vatnsveitu og fráveitu eru lægri en hjá flestum sveitarfélögum sem eðlilegt er að við berum okkur saman við.

Miklar framkvæmdir eru og verða framundan í öllum veitum Norðurorku á næstu árum og á það bæði við um nýframkvæmdir og viðhald. Hér má nefna lagningu nýrrar hitaveitulagnar frá Hjalteyri, byggingu hreinsistöðvar fyrir fráveitu og lagnir og vatnsból vegna neysluvatnstöku úr Vaðlaheiðargöngum.
Við gerð langtíma áætlunar var niðurstaðan því sú að nauð­synlegt væri að verðbreytingar taki mið af hækkun rekstrarkostnaðar og þeim væntingum um verðlagsbreytingar sem Seðlabanki Íslands gerir ráð fyrir. Á grundvelli greiningar á rekstrar­­­kostnaði og að teknu tilliti til fjárfestingaáætlana var niðurstaða stjórnar Norðurorku að hækka verð­skrá veitna um 3,0% frá og með 1. janúar 2018. Verðskrá raforkudreifingar sem er ein sú hagstæðasta á landinu, hækkar þó um 9% en þess ber að geta að verðskrá rafveitu hafði aðeins hækkað um 3,5% frá 1. janúar 2012.
Þrátt fyrir hækkunina er verðskrá raforkudreifingar enn undir þeim tekjuramma sem Orkustofnun setur Norðurorku og fyrirtækinu er ætlað að fylgja.

Hitaveita:
Rúmmetraverð er 113,75 kr. í öllum veitum nema á Ólafsfirði kr. 69,62 (lægra hitastig á vatni) og í Reykjaveitu en þar er innheimt orkugjald kr. 3,96 á kWst. (bakrás 25°C) og kr. 4,55 á kWst. (bakrás 30°C). Við bætist umhverfis- og auðlindagjald 2% og virðis­aukaskattur 11%. Algengasta rúmmetraverð með sköttum og gjöldum er því kr. 128,79.

Rafveita:
Almennt verð dreifingar er 3,50 kr. á kWst., flutningsgjald Landsnets kr. 1,82 á kWst. og  jöfnunargjald í ríkissjóð er kr. 0,30 á kWst. eða samtals kr. 5,62 á kWst. Við bætist virðisaukaskattur 24% á almenna raforkudreifingu og 11% á hitataxta. 

Vatnsveita:
Vatnsgjald er kr. 133,30 á hvern fermetra húsnæðis auk fastagjalds sem er kr. 8.884,- á matseiningu íbúðarhúsnæðis og kr. 17.768,- á matseiningu atvinnuhúsnæðis. Aukavatnsgjöld hækka að sama skapi um tæplega 3,0%. Vatnsgjöld eru innheimt samhliða fasteignagjöldum. Ekki er greiddur virðisaukaskattur af vatnsgjöldum.

Fráveita:  
Fastagjald á hverja matseiningu íbúðarhúsnæðis er kr. 8.878,- og kr. 209,75 á hvern m². Árlegt fráveitugjald á annað húsnæði en íbúðarhúsnæði er kr. 8.878,- og kr. 209,75 á hvern m². Fráveitugjöld eru innheimt samhliða fasteignagjöldum.  Ekki er greiddur virðisaukaskattur af vatnsgjöldum.

Verðskrár Norðurorku í heild sinni má sjá hér.