Þessa dagana er unnið að dæluupptekt við hitaveituborholu LÞNS-10 á Laugalandi Þelamörk.
Holan er önnur af tveimur holum á svæðinu sem m.a. sjá Þelamerkursvæðinu fyrir heitu vatni auk þess sem vatni úr holunum er dælt til Akureyrar. Dælan sem verið er að taka uppúr holunni er á 250m dýpi.
Ástæður dæluupptekta geta verið ýmsar en í þessu tilfelli er um hefðbundið viðhaldsverk að ræða. Skipt er um dælu í holunni auk þess sem ástand annars búnaðar er metið og hann endurnýjaður eftir þörfum. Með skipulögðu eftirliti sem þessu má lágmarka líkur á að eitthvað komi upp síðar.
Eins og gefur að skilja er borhola ekki í rekstri á meðan verið er að taka dæluna uppúr henni. Það verður þó enginn viðskiptavinur vatnslaus á meðan þar sem vatni er komið út á kerfið eftir öðrum leiðum. Í þessu tilviki er vatninu frá Hjalteyri dreift um svæðið en á meðan má segja að það safnist í „heitavatns pottinn“ á svæðinu á Laugalandi á Þelamörk.
Á myndunum sem fylgja fréttinni (til að sjá fleiri myndir er smellt á myndina hér að ofan) má sjá þegar verið var að losa og hífa 47. borholurörið upp af þeim 81 sem voru ofan í borholunni. Eftir að rör hefur verið losað og skrúfað frá næsta röri fyrir neðan er það híft upp í gegnum þakið á borholuskúrnum, lagt til hliðar og yfirfarið ásamt öðrum búnaði holunnar.
Það er greinilegt að þarna eru vanir menn að störfum sem hafa komið sér upp ákveðnu verklagi þannig að verkið gengur hratt og vel fyrir sig.
Opnunartími Norðurorku
Opið virka daga kl. 8-12 og 13-15