Ástæður dæluupptekta geta verið ýmsar en í þessu tilfelli var verið að skipta um dælu í holunni og setja afkastameiri dælu þar sem notkun á heitu vatni hefur aukist í Ólafsfirði líkt og annarsstaðar. Auk þess að skipta um dælu í holunni var ástand annars búnaðar metið og hann endurnýjaður eftir þörfum. Dælan í holunni er á 103 m dýpi.
Á Ólafsfirði eru þrjár holur sem anna heitavatnsnotkun bæjarins. Ein hola í Skeggjabrekkudal (SK-16) sem er með sjálfrennsli og tvær holur á Laugarengi (hola 3 og hola 4) sem báðar eru með dælur. Engir viðskiptavinir urðu því vatnslausir meðan á verki stóð.
Verkið gekk hratt og vel fyrir sig og augljóst að þarna voru vanir menn að störfum sem hafa komið sér upp ákveðnu verklagi við dæluupptektir.
Norðurorka tók við Hitaveitu Ólafsfjarðar í ársbyrjun 2006 en upphaf hitaveitu Ólafsfjarðar má rekja til ársins 1935. Þá hafði Ungmennafélagið í bænum verið að kanna möguleika á að byggja sundlaug og var þá farið upp í Skeggjabrekkudal til að kanna aðstæður. Vitað var að þar hafði frá ómunatíð komið upp vatn sem konur höfðu nýtt til þvotta. Í Skeggjabrekkudal hafa verið boraðar margar holur en hola SK-16 sem boruð var árið 2015 er vinnsluhola svæðisins. Fyrstu þrjá áratugina nýtti hitaveitan eingöngu heitt vatn af Skeggjabrekkudal en frá árinu 1975 hefur jarðhitasvæðið á Laugarengi einnig verið nýtt. Á Laugarengi hafa verið boraðar 4 holur. Hola 3 frá árinu 1975 varð fyrsta vinnsluholan á svæðinu en þegar hola 4 var boruð árið 1982 reyndist hún töluvert afkastameiri en hola 3 og hefur síðan þá verið aðal vinnsluhola hitaveitunnar á Laugarengi.
Hér að neðan má sjá myndir frá Ólafsfirði, teknar af Óskari Gíslasyni.
Opnunartími Norðurorku
Opið virka daga kl. 8-12 og 13-15