24. júl 2023

Eitt af stóru viðhaldsverkefnum Norðurorku

Hitaveitubrunnur fjarlægður í Langholti á dögunum. Brunnar eru óheppileg vinnusvæði og samsetningar …
Hitaveitubrunnur fjarlægður í Langholti á dögunum. Brunnar eru óheppileg vinnusvæði og samsetningar í þeim eru afar viðkvæmar fyrir tímans tönn. Því fögnum við því að gömlu brunnunum fari smám saman fækkandi.

Í hitaveitukerfi Norðurorku er töluverður fjöldi af gömlum hitaveitubrunnum, en eitt af stóru viðhaldsverkefnum fyrirtækisins er að fjarlægja þessa brunna úr kerfinu og bæta þannig afhendingaröryggi, vinnuaðstæður og öryggi starfsfólks. 

Brunnur fjarlægður í LönguhlíðBúið er að fjarlægja lokið af brunninum. Nú er bara að losa um hann og hífa upp.

Jarðvegslokar í stað hitaveitubrunna - leið að bættu öryggi

Umræddir hitaveitubrunnar eru steinsteypt jarðhýsi þar sem ýmsar tengingar lagna koma saman. Með breyttri tækni og fjölbreyttari efnum eru þessir brunnar orðnir úreltir og gera langtímaáætlanir Norðurorku ráð fyrir því að brunnarnir verði lagðir af með tíð og tíma. Í stað hitaveitubrunns eru settir jarðvegslokar sem gera það að verkum að starfsfólk þarf ekki lengur að fara ofan í hættulegan brunninn til að skrúfa fyrir loka komi upp bilanir á aðliggjandi lögnum eða ef tengja þarf ný hús inn á þær. 

Hér að ofan má sjá vatnsslöngu sem liggur ofan í hitaveitubrunninn. Ný aðferð við að losa um brunninn er að dæla vatni ofan í hann og þá flýtur brunnurinn upp sjálfur og auðveldara er að hífa hann upp.

 Stórt og tímafrekt verk

Það að fjarlægja hitaveitubrunn er stórt og tímafrekt verk sem krefst þess meðal annars að vatn sé tekið af ákveðnum svæðum á meðan vinna stendur yfir. Viðskiptavinir sem rofið snertir eru þá, með ákveðnum fyrirvara, upplýstir um rofið með sms skilaboðum eða eftir öðrum leiðum. Rétt er að nýta tækifærið hér til að minna á að hægt er að skrá símanúmer sitt hjá Norðurorku með því að fara inn á Mínar síður eða með því að hringja í síma 460-1300. 

Á dögunum var unnið að því að fjarlægja brunn sem staðsettur var í Langholti. Framkvæmdir við gatnagerð eru nú í gangi á svæðinu á vegum Akureyrarbæjar og því eru samlegðaráhrif falin í því að fjarlægja gamla hitaveitubrunninn á sama tíma.


Á fyrstu myndinni hér að ofan má sjá jarðvegslokann sem kominn er í staðinn fyrir hitaveitubrunninn.
Sem fyrr segir krefst brunnafjarlæging þess að vatn sé tekið af ákveðnum svæðum. Á tveimur seinni  myndunum má sjá hvar búið er að loka fyrir vatn svo framkvæmd geti átt sér stað. Ofan í jörðinni er starfsmaður (sem ekki sést í) sem sér um að loka fyrir vatnið á svæðinu. Ávallt er starfsmaður ofanjarðar sem tryggir öryggi þess sem lokar fyrir vatnið. 

Smám saman unnið að því að fjarlægja brunna úr dreifikerfinu

Nú er einum brunni færra í dreifikerfi Norðurorku, þó vissulega séu fleiri eftir. Líkt og sjá má á fyrstu myndum eru brunnar afar óheppileg vinnusvæði og það hefur sýnt sig að samsetningar í þeim geta verið afar viðkvæmar fyrir tímans tönn ekki síst ef vatn kemst í brunnana. Því fögnum við því að þeim fari smám saman fækkandi.