Á síðasta löggjafarþingi voru samþykkt ný lög um verndar- og orkunýtingaráætlun, lög nr. 48/2011 en með þeim var sköpuð nauðsynleg umgjörð um rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúrusvæða sem unnin hefur verið að allt frá árinu 1999 þegar fyrsta verkefnisstjórnin tók til starfa. Síðan þá hefur gríðarlega mikil og gagnmerk vinna farið fram og margir lagt hönd á plóginn.
Niðurstaða verkefnisstjórnarinnar hefur nú verið felld inn í drög að þingsályktunartillögu sem lögð verður fram á komandi þingi. Áður en að því kemur fara drögin hins vegar í opið umsagnar- og samráðsferli meðal þjóðarinnar sem stendur næstu 12 vikurnar frá 19. ágúst að telja.
Í drögum að þingsályktunartillögunni kemur fram niðurröðun virkjunarhugmynda í verndarflokk, biðflokk og nýtingarflokk. Þar er tekin afstaða til 69 virkjanahugmynda og af þeim fara 20 í verndarflokk, 22 í nýtingarflokk og 27 í biðflokk. Í síðastnefnda flokkinn fara þær virkjunarhugmyndir sem talin er þörf á að rannsaka frekar sem þá þýðir að þær eru metnar með tilliti til þess hvort þær skuli fara í nýtingar- eða verndarflokk.
Með opnu umsagnar- og samráðsferli gefst almenningi og hagsmunaðilum kostur á að koma með athugasemdir og skila inn umsögn um flokkunina í heild, ákveðna virkjunarhugmynd eða eftir atvikum ákveðin svæði.
Opnunartími Norðurorku
Opið virka daga kl. 8-12 og 13-15