18. feb 2014

Heitt vatn í Vaðlaheiðargöngum

Heitt vatn í Vaðlaheiðargöngum
Eins og fram hefur komið í fréttum komu bormenn Vaðlaheiðaganga inn á vHeitt vatn í Vaðlaheiðargöngum mynd Oddur Sigurðsson verkfræðinguratnsæð í göngunum  sem er tæplega 50°C heit. Strax við hönnun gangnanna var gert ráð fyrir þeim möguleika að þau hittu á vatnsæðar í berginu og af þeirri ástæðu gerðu Vegagerðin og Norðurorka hf. með sér samkomulag árið 2011 sem fól í sér viðbrögð við mögulegri vatnsþurrð í neyslu vatnsbólum í heiðinni.

Erfitt er að segja til um á þessari stundu hvaðan þetta heita vatn á uppruna sinn og hvort eða með hvaða hætti það tengist gamla vinnslusvæðinu við Svalbarðseyri.  Hitastig vatnsins er sem stendur um 46°C sem er ekki nægilegt til þess að nýta beint inn á veitukerfi Norðurorku hf. á svæðinu.  Þá á tíminn eftir að leiða í ljós hvort hitastig og vatnsmagn verður stöðugt eða hvort dregur úr hita og magni sem er verulegt sem stendur eða um 250-300 l/sek.  Samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar munu sérfræðingar ÍSOR efnagreina vatnið á næstu dögum.

Hitaveita og vatnsveita Svalbarðsstrandarhrepps
Hitaveita Svalbarðsstrandarhrepps, sem stofnuð var árið 1980, sameinaðist Norðurorku hf. árið 2003 og hreppurinn varð þar með hluthafi í félaginu.  Á þeim tíma var Hitaveita Svalbarðsstrandar komin að þolmörkum með mögulegt vatn og var það því eitt af fyrstu verkefnum Norðurorku hf. að leggja stofnlögn frá Akureyri út á Svalbarðsströnd og tryggja nægjanlegt vatn. Við þetta fjölgaði viðskiptavinum nokkuð því inn á dreifikerfið komu nýir notendur í syðsta hluta hreppsins sem og á lagnaleiðinni inn á Svalbarðsströnd.  Þær tvær holur sem hitaveita Svalbarðsstrandarhrepps boraði við Svalbarðseyri um 1980 eru ekki nýttar fyrir hitaveitu á svæðinu þar sem þær eru ekki nógu gjöfular. 

Heitt vatn í Vaðlaheiðargöngum mynd Oddur Sigurðsson verkfræðingur

Íbúar í Svalbarðsstrandarhreppi árið 2003 voru 366.  Nokkru síðar eða árið 2005 rann vatnsveita Svalbarðsstrandarhrepps inn í Norðurorku hf. og tók félagið við rekstrinum 1. janúar 2006. Bæði veitukerfi hitaveitu og vatnsveitu Svalbarðsstrandar þörfnuðust mikils viðhalds og endurnýjunar og hefur markvisst verið unnið að því frá kaupum á veitunum. 

Auk áðurnefndrar tengingar veitusvæðis hitaveitunnar í Svalbarðsstrandarhreppi við dreifikerfið á Akureyri varð mikil breyting á stöðu vatnsveitunnar í sveitarfélaginu þegar tvö aðskilin veitusvæði hennar voru samtengd árið 2011. Eins og nefnt var hér í upphafi tengdist það verkefni áhyggjum Norðurorku hf. af mögulegri vatnsþurrð af völdum gangnagerðar um Vaðlaheiði í svonefndum Halllandsbólum sem eru vatnstökusvæði í landi Halllands og þjóna suðurhluta Svalbarðsstrandarhrepps.

Af þessum ástæðum var ákveðið að leita samninga við Vegagerð ríkisins um mögulegar lausnir vegna þessarar hættu. Niðurstaða þeirra varð sú að Vegagerðin og Svalbarðsstrandarhreppur samþykktu að taka þátt í kostnaði við tengingu veitusvæðisins sem þjónar norðurhluta hreppsins við syðra veitusvæðið. Nyrðra svæðið fær vatn úr svonefndum Garðsvíkurlindum sem eru skammt norðan og ofan við bæinn Garðsvík en þau ból eru talin gefa það vel af vatni að þau geta í hefðbundnu árferði þjónað báðum veitusvæðunum.  Unnið hefur verið að endurbótum á lindunum í Garðsvík bæði eldri lindunum auk þess sem borað var fyrir nýrri lind inn í bergið síðastliðið haust til að auka afkastagetu og öryggi svæðisins.

Í dag eru íbúar í Svalbarðsstrandarhreppi 414 að tölu, en auk þess eru fjölmörg frístundahús í sveitarfélaginu sem Norðurorka þjónustar. Húsveitur sem njóta hitaveitu í sveitarfélaginu eru rúmlega 200 og húsveitur sem njóta vatnsveitu eru nokkuð fleiri.

Með fréttinni má sjá myndir sem Oddur Sigurðsson verkfræðingur tók í og við Vaðlaheiðargöng (af vef Vaðlaheiðarganga).