10. jan 2012

Verðbreytingar hjá Norðurorku hf. 1. janúar 2012

Hjalteyri - Dælustöð Norðurorku í forgrunn
Hjalteyri - Dælustöð Norðurorku í forgrunn
Í ljósi traustrar stöðu Norðurorku hf. tók stjórn ákvörðun um að halda hækkunum á verðskrá fyrir árið 2012 í lágmarki.
Almennar forsendur

Breytingar á vísitölum og þar með verðlagi hafa verið umtalsverðar frá lokum árs 2010 til loka árs 2011.  Þannig hefur byggingavísitala hækkað um 10,71% (des. til des.) og launavísitala um 9,02% (nóv. til nóv.) og vísitala neysluverðs til verðtryggingar um 5,28% (des. til des.).

Í ljósi traustrar stöðu Norðurorku hf. tók stjórn ákvörðun um að halda hækkunum á verðskrá fyrir árið 2012 í lágmarki eins og nánar er lýst hér að neðan.  Verðskrá heimlagna tekur þó breytingum í samræmi við hækkun byggingavísitölu enda í aðalatriðum um að ræða kostnað vegna aðkeyptra aðfanga og því nauðsynlegt að taka mið af breytingum á verði þeirra.  Sömuleiðis tekur vatnsveitan hækkun í samræmi við breytingu á vísitölu neysluverðs sem þó er minnsta breyting á vísitölu milli ára.

Rafveita
Verðskrá raforkudreifingar hækkar um 3,0%.  Mikilvægt er að hafa í huga að raunverð raforkudreifingar hjá Norðurorku hefur farið lækkandi frá árinu 2005 og er í dag það lægsta á landinu.

Hitaveita
Fastagjöld hitaveitu haldast óbreytt frá árinu 2011, en rúmmetra verð á heituvatni hækkar um 3,16% í öllum veitum nema Reykjaveitu*.  Hafa ber í huga að verðskrá hitaveitu var óbreytt milli áranna 2010 og 2011, nema í Reykjaveitu*.
Þar sem fastagjaldið hækkar ekki milli ára er raunhækkun að meðatali 2,12% hjá viðskiptavinum.  Í ljósi þess að verðskrá hefur verið óbreytt frá upphafi árs 2010 má ljóst vera að framangreind hækkun er mjög óveruleg.
*Í upphafi árs 2011 var tekin upp sú nýbreytni í Reykjaveitu (Fnjóskadalur og Grýtubakkahreppur) að vatnið er selt eftir orkumælingu og er verð á kWst 3,15 kr.  Með þessu var forsendum verðskrár breytt verulega og í ljósi þess var ákveðið að fara sérstaklega yfir verðskrána þegar búið væri að mæla kWst notkun viðskiptavina samfellt í 12 mánuði.  Er einmitt verið að ljúka álestrum í Reykjaveitu um þetta leyti.  Í kjölfar þess verður metið sérstaklega hvort nauðsynlegt er að gera breytingar á verðskrá Reykjaveitu núna í upphafi ársins 2012.

Vatnsveita
Eins og áður segir hækkar verðskrá vatnsveitu um 5,28% eða sem nemur hækkun á vísitölu neysluverðs frá desember 2010 til desember 2011.

Heimlagnagjöld allra veitna
Verðskrá heimlagna byggir fyrst og fremst á þeim aðföngum sem til þeirra þarf og því er nauðsynlegt að hækka þann verðskrárlið í samræmi við breytingar á vísitölu byggingarkostnaðar.  Verðskrá heimlagna hækkar því um 10,71%.  Hafa ber í huga í þessu sambandi að heimlagnagjald greiðist einu sinni fyrir hverja eign (nema óskað sé endurnýjunar heimlagna) og því ekki um fasta notkun að ræða eins og á við um önnur gjöld samkvæmt verðskrá.