Aðalfundur Samorku – samtaka orkufyrirtækja – var haldinn sl. föstudag. Í opnum hluta fundarins ávarpaði atvinnu- og nýsköpunarráðherra Steingrímur J. Sigfússon fundinn.
Ráðherra skaut föstum skotum á fundarmenn þegar hann í upphafi máls síns fjallaði um rammaáætlun og sagði orkugeirann gera allt of mikið úr þeim breytingum sem gerðar voru í meðförum þingsins. Þær væru enginn héraðsbrestur og lagði hann til að menn hættu að horfa í baksýnisspegilinn enda ljóst að þetta væri spurning um minniháttar breytingar sem ekki skiptu miklu um framtíðar uppbyggingu. Ekki væri skortur raforku og því töluvert svigrúm fyrir biðflokka kosti. Við Íslendingar yrðum að átta okkur á því að ekki væru langar biðraðir eftir þeirri raforku sem væri til.
Varðandi orkubúskaparmálin í heild sinni sagði Steingrímur að margir spennandi kostir væru framundan bæði í framleiðslu sem og nýtingu raforkunnar. Nefndi hann sem dæmi nýgangsettar vindaflstöðvar Landsvirkjunar sem gætu spilað skemmtilega með öðrum framleiðslukostum. Mikilvægt væri að horfa til sem flestra kosta sem tryggðu skynsama og sjálfbæra orkunýtingu.
Steingrímur sagði Landsvirkjun ekki til sölu og sagði hugmyndir um slíkt ekki fallið til vinsælda hjá þjóðinni. Þá sagði hann að löggjafarþróun um eignarhald á auðlindum hafa verið mjög jákvæða og næst sé að tryggja þessi ákvæði inn í stjórnarskrá.
Útflutning á raforku með sæstreng sagði Steingrímur áhugaverðan kost, til dæmis til Færeyja en hugsanlega einnig til Evrópu. Það mál þyrfti hins vegar að skoða mjög vel og meta kosti og galla. Mikilvægt væri að sátt verði um slíka leið.
Endurskoðun á lagaákvæðum um stöðu grunnvatns sagði Steingrímur að væri í undirbúningi og frumvarp sem byggði á tillögum s.n. „grunnvatnsnefndar“ frá síðastliðnu ári yrði lagt fram á næstunni. Þar væri gert ráð fyrir að ákvæði um grunnvatn komi inn í vatnalög en verði ekki inn í svonefndum auðlindalögum. Sömuleiðis er ráðgert að skerpa á og treysta lagaákvæði sem varða vatn með grundvallarákvæðum þar að lútandi í vatnalögum.
Varðandi framtíðarskipan flutnings og dreifingar á raforku setti ráðherrann fram hugmynd um vinnu að rammaáætlun um framtíðaruppbyggingu þessara kerfa með svipuðum hætti og unnin var rammaáætlun um verndun og nýtingu auðlinda. Orkugeirinn hlyti að taka slíkri tillögu fagnandi.
Opnunartími Norðurorku
Opið virka daga kl. 8-12 og 13-15