Markvisst hefur verið unnið að því á þessu ári að auka rekstraröryggi hitaveitna Norðurorku með því að koma upp varaafli fyrir dælustöðvar.
Á þessu ári er búið að koma fyrir varaaflsvélum við dælustöðvar í Ólafsfirði og á Arnarnesi (Hjalteyri). Áður var búið að koma fyrir varaaflsvélum í dælustöðinni á Laugalandi í Eyjafirði og við dælustöð á Reykjum í Fnjóskadal. Þá er varaaflsvél á vagni við dælustöðina við Þórunnarstræti á Akureyri og önnur færanleg vél á vagni sem staðsett er á Rangárvöllum.
Þegar þessum aðgerðum verður að fullu lokið hefur rekstraröryggi hitaveitna verið aukið til mikilla muna komi til langvarandi straumleysis vegna bilanna á flutningskerfi raforku til Akureyrar eða erfiðleika í raforkuframleiðslu. Enn er eftir að huga að auknu rekstraröryggi á svonefndum smádælustöðvum sem eru víða í dreifikerfi hitaveitunnar. Er gert ráð fyrir því að til framtíðar litið verði þær þannig útbúnar að hægt sé að tengja við þær litlar rafstöðvar komi til neyðarástands.
Hér að neðan má sjá mynd af varaaflsstöð sem búið er að koma fyrir við hlið dælustöðvarinnar á Arnarnesi við Hjalteyri en hún dælir vatni til íbúa í Hörgársveit og á Akureyri. Þessa daganna er unnið að tengingum varaaflstöðvarinnar.
Opnunartími Norðurorku
Opið virka daga kl. 8-12 og 13-15