Reglulegar mælingar hafa verið gerðar á lindunum í Garðsvíkurlandi undanfarið og einnig tekin sýni úr dreifikerfinu. Enn gætir mengunar af völdum yfirborðsvatns sem komist hefur saman við lindarvatnið. Ekkert er því hægt að segja til um hvenær vænta megi að ástandið lagist ekki síst þar sem enn er mikil leysing og líkur til að hún verði áfram mikil fram í næstu viku. Áfram þarf því að sjóða vatn til neyslu á veitusvæðinu í Svalbarðsstrandarhreppi, þ.e. frá Kotabyggð norður fyrir Garðsvík.
Neyðarstjórn Norðurorku hefur fundað með heilbrigðisfulltrúa um ástandið og möguleika í stöðunni bæði til skamms tíma sem og til framtíðar litið.
Mikilvægt er að sem gleggstra upplýsinga sé aflað um ástand lindarsvæðisins og þar með hvort einhverjar breytingar kunni að hafa orðið á því. Í þessu skyni mun jarðfræðingur frá Íslenskum orkurannsóknum (ÍSOR) koma hingað norður í næstu viku.
Ljóst er að eitthvert jarðrask hefur orðið á lindarsvæðinu og má ætla að enn séu hættur á ferðinni hvað það snertir. Á lindarsvæðinu eru fjórar megin vatnslindir og ljóst að ástand þeirra er misslæmt af mengun. Með þetta í huga er grannt fylgst með hverri og einni þeirra ef vera mætti að hægt verði að nýta eina eða fleiri þeirra, en loka öðrum ef svo ber undir, þ.e. þau kunna að hreinsa sig mishratt af menguninni.
Viðskiptavinir eru áfram beðnir að fylgjast með upplýsingum hér á heimasíðunni.
Opnunartími Norðurorku
Opið virka daga kl. 8-12 og 13-15