Í ánni verður byggð um 5-6 metra há stífla sem er í um 300 m hæð yfir sjávarmáli til móts við Selllandslindir, vatnsveitu Norðurorku á Glerárdal. Lónið innan við stífluna verður um 10.000 m² að flatarmáli. Frá lóninu liggur um 5,8 km fallpípa að stöðvarhúsi sem byggt verður í Réttarhvammi til móts við Möl og sand. Raforka frá virkjuninni fer inn á dreifikerfi Norðurorku um jarðstreng.
Fallorka og Akureyrarbær munu vinna náið saman að ákvörðun um endanlega staðsetningu og hönnun mannvirkja, svo sem staðsetningu og útlit á stöðvarhúsi, leið þrýstipípu, staðsetningu og útliti stíflu og göngubrúar, legu göngustígs og yfirborðsfrágang. Fallorka greiðir kostnað vegna skipulagsvinnu sem snýr að virkjuninni og tengdum framkvæmdum. Samhliða því að fallpípa verður grafin niður mun Fallorka leggja göngu- og hjólastíg frá stöðvarhúsi í Réttarhvammi um 6 km eftir norðurbakka Glerár upp að nýju stíflunni. Stígurinn tengist göngustíg við Hlíðarbraut og Þingvallastræti með leið undir bílabrú á Hlíðarbraut. Gert er ráð fyrir að stígurinn liggi með Glerá austan við skotsvæði og tengist núverandi göngubrú sunnan þess. Ný göngubrú verður á stíflunni fram á Glerárdal sem opnar enn frekar aðgang að útivistarsvæðinu þar.
Loftmynd af stíflustæðinu og leið fallpípunnar meðfram Glerá niður að Réttarhvammi.
Gert er ráð fyrir að nauðsynlegum breytingum á aðalskipulagi og deiliskipulagi verði lokið í maí 2014 og að virkjunin verði gangsett í desember 2015. Þá er gert ráð fyrir að endanlegum frágangi á göngustíg og öðrum mannvirkjum ásamt umhverfi þeirra verði lokið í júní 2016.
Opnunartími Norðurorku
Opið virka daga kl. 8-12 og 13-15