Þjónustuver Norðurorku er upplýsingaveita fyrir viðskiptavini fyrirtækisins. Hægt er að hafa samband við þjónustuverið í síma 460 1300 eða með tölvupósti á no@no.is. Bylgja Rúna Aradóttir, þjónustustjóri, segir að öllum erindum sé svarað eins fljótt og auðið er og/eða þeim vísað til starfsfólks innan fyrirtækisins sem taki þau til úrlausnar og afgreiðslu.
Eins og vera ber eru erindi og fyrirspurnir viðskiptavina til þjónustuvers Norðurorku af ýmsum toga. Þjónustuver annast alla símsvörun og upplýsingagjöf til fólks, allar umsóknir einstaklinga og verktaka um nýjar heimlagnir hvort sem um ræðir rafmagnsheimtaugar, vatnsheimlagnir eða tengingar við fráveitu. Þjónustuver hefur með höndum reikningagerð og innheimtu orkureikninga. Ráðist húseigendur í framkvæmdir utanhúss, sem er algengast á sumrin, eru þeir hvattir til þess að láta þjónustuverið vita þannig að Norðurorku gefist færi á því að meta hvort fyrirtækið telji ástæðu til að nýta tækifærið og endurnýja lagnir inn í hús.
Auk framangreinds er þess að geta að þjónustuverið lætur meðal annars viðskiptavini vita með textaskilaboðum í síma ef rof verður á þjónustu vegna viðhalds og viðgerðarvinnu eða bilana og sendir einnig tölvupósta. Þess vegna er mikilvægt að viðskiptavinir skrái farsímanúmer sín og netföng inn á „Mínar síður eða hringi í þjónustuverið og gefi þessar upplýsingar.
„Mínar síður
Á heimasíðu Norðurorku – www.no.is – er flipi efst til hægri sem heitir „Mínar síður. Þar geta viðskiptavinir fyrirtækisins nálgast upplýsingar sem þá varðar, t.d. notkun á heitu vatni og rafmagni, og einnig er þar að finna orkureikninga. Viðskiptavinir tengjast „Mínum síðum með rafrænum skilríkjum eða Íslykli.
Yfirgnæfandi meirihluti viðskiptavina kýs að fá orkureikninga rafrænt inn á heimabanka en ef þess er óskað er hægt að fá senda greiðsluseðla á pappír gegn seðilgjaldi.
Vegna álestra af mælum tekur Bylgja Rúna þjónustustjóri fram að húseigendur geti sjálfir lesið af mælum og sent upplýsingar rafrænt til Norðurorku á netfangið no@no.is. Hvatt er til þess að fólk taki myndir af mælunum er sýni stöðu mælis og mælisnúmer og sendi þær til staðfestingar á álestri.
Opnunartími Norðurorku
Opið virka daga kl. 8-12 og 13-15