Akureyrarbær hefur um margra ára skeið unnið ötullega að úrgangsflokkun og verið þar leiðandi á landsvísu. Forsenda þess að þetta verkefni gangi vel er að fyrirtæki í bænum taki þátt í verkefninu af heilum hug. Norðurorka hefur með þetta góða fordæmi að leiðarljósi aukið vægi umhverfismála í rekstri sínum með margvíslegum hætti á undanförnum árum.
Í lok árs 2015 skrifuðum við undir loftslagsyfirlýsingu Festu ásamt fjölmörgum fyrirtækjum og stofnunum. Það felur meðal annars í sér skuldbindingu Norðurorku til að sýna samfélagslega ábyrgð í verki með því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og minnka myndun úrgangs. Hefur fyrirtækið í framhaldinu samþykkt umhverfisstefnu félagsins og sett sér ýmis markmið til þess að vinna henni framgöngu.
Eitt af því er að bæta enn frekar alla flokkun á úrgangi og voru í þessu skyni keyptar nýjar flokkunarstöðvar og þeim komið fyrir á nokkrum stöðum í fyrirtækinu. Þó svo að flokkunin hafi verið ágæt fyrir er óhætt að segja að hún hafi batnað og gangi enn betur en áður. Verður að segja eins og er að það sem kemur flestum á óvart er hversu lítið rusl fer í flokkinn "almennt" og er það ánægjulegt.
Á flokkunarílátunum eru heimagerðar merkingar þar sem listað er upp hvað má fara í hvaða ílát.
Áhugasamir geta nálgast merkingarnar hér, en athugið að einhver munur getur verið á flokkunarleiðbeiningum á milli landsvæða.
Ástæða er til að þakka starfsfólki frammistöðuna sem kemur ekki á óvart þar sem allir starfsmenn eru vanir þessu heima.
Opnunartími Norðurorku
Opið virka daga kl. 8-12 og 13-15