Á starfsmannafundi Norðurorku hf. í dag tók nýr forstjóri Norðurorku hf. Helgi Jóhannesson við lyklunum af fráfarandi forstjóra Ágústi Torfa Haukssyni sem hverfur til starfa hjá Jarðborunum hf.
Helgi er menntaður vélstjóri og vélaverkfræðingur. Hann lauk meistaranámi frá Aalborg Universitet árið 1987. Helgi hefur undanfarin fimm ár verið umdæmisstjóri VÍS á Norðurlandi, en á árunum 2001 - 2007 var hann framkvæmdastjóri Norðurmjólkur ehf. Helgi hefur fjölbreytta starfsreynslu úr atvinnulífinu, m.a. fyrir sveitarfélög og hefur setið í stjórnum fjölda fyrirtækja gegnum árin. Helgi er kvæntur Stefaníu G. Sigmundsdóttur leikskólakennara og tækniteiknara og eiga þau fjögur börn.
Geir Kristinn Aðalsteinsson stjórnarformaður bauð Helga velkominn til starfa og þakkaði Ágústi Torfa hans störf í þágu fyrirtækisins. Ágúst hélt að því búnu stutta tölu þar sem hann þakkaði starfsfólki og stjórn kærlega fyrir frábært samstarf þann stutta tíma sem hann hefur starfað fyrir fyrirtækið. Hann sagði að það hefði verið erfitt val að skipta um starfsvettvang ekki síst eftir svona stuttan tíma og þegar um tvo frábæra kosti væri að ræða. Að því búnu bauð hann Helga hjartanlega velkominn til starfa og sagði hann engu þurfa að kvíða, hjá Norðurorku væri frábær hópur og skemmtileg liðsheild.
Að því búnu tók Helgi til máls. Hann kynnti sig og bakgrunn sinn og sagðist hlakka til að takast á við spennandi verkefni með starfsmönnum Norðurorku við að gera gott fyrirtæki enn betra.
Opnunartími Norðurorku
Opið virka daga kl. 8-12 og 13-15