Ýmsar framkvæmdir eru í gangi á Þeistareykjum þessar vikurnar og verða næstu mánuði.
Starfsmenn Jarðborana hf. vinna nú að borun á svæðinu en bora á tvær 2.000 – 2.500 metra djúpar rannsóknarholur. Með þeim á að kanna jarðhitageyminn undir Ketilfjalli á austurhluta svæðisins og undir Stórahver sem er á vesturhluta þess. Um 30 – 40 manns koma að verkefninu, en það er jarðborinn Óðinn sem notaður er við verkið og er áætlað að það taki um þrjá mánuði. Síðast var borað á svæðinu fyrir um þremur árum, en alls hafa verið boraðar sex holur á svæðinu sem samtals duga til framleiðslu á 45 MW raforku.
Auk framkvæmda við boranir er einnig unnið við fyrsta áfanga Þeistareykjavegar nyðri. Það er 11,2 km langur kafli sem nær frá Höfuðreiðarmúla suður að þeim stað sem fyrirhugað stöðvarhús á að rísa sem er um 1,5 km. norðan við núverandi Þeistareykjaskála. Stærsti hluti vegagerðarinnar er í Þingeyjarsveit en norðurhluti hans er í Norðurþingi.
Þá hefur einnig verið unnið að því að efla fjarskipti á svæðinu með því að koma upp nýju fjarskiptamastri á Ketilfjalli. Það er Neyðarlínan sem stendur að framkvæmdinni, en settir eru upp Tetra- og GSM-sendar sem ná til um 500 km² svæðis. Þessir sendar munu bæta mjög öryggi bæði starfsmanna á svæðinu og útivistarfólks á stór Þeistareykjasvæðinu.
Opnunartími Norðurorku
Opið virka daga kl. 8-12 og 13-15