Bygging hreinsistöðvar fráveitu í Sandgerðisbót er í öllum meginatriðum á áætlun og telur Haraldur Jósefsson, verkefnastjóri fráveitu hjá Norðurorku, að komi ekkert óvænt upp verði stöðin tekin í notkun næsta vor, eins og áætlanir hafa gert ráð fyrir.
Norðurorka tók yfir fráveitu Akureyrar í ársbyrjun 2014 og á vordögum 2018 var undirritaður samningur Norðurorku og byggingarfyrirtækisins SS Byggis um byggingu hreinsistöðvarinnar. SS Byggir á að hafa lokið sínum hluta verksins í febrúar á næsta ári.
Fráveitukerfi bæjarins er mikið að umfangi og hafa á undanförnum árum verið byggðar dælustöðvar og lagðar þrýstilagnir meðfram strandlengjunni að útrás við Sandgerðisbót. Fyrir nokkrum árum var bráðabirgðaútrás lengd í 90 metra en með tilkomu hinnar nýju hreinsistöðvar á næsta ári verður öllu skólpi dælt í hreinsivirki stöðvarinnar og því síðan veitt í 400 metra langa og 40 metra djúpa útrás út í sjó.
Í mörg horn að líta
„Auðvitað hefur eitt og annað komið upp við þessa framkvæmd en í stórum dráttum hefur hún gengið eins og var lagt upp með í upphafi,“ segir Haraldur Jósefsson, verkefnastjóri fráveitu. „Við áætluðum rúman framkvæmdatíma og erum nokkurn veginn á áætlun og ég sé ekkert sem geti komið í veg fyrir að við tökum hreinsistöðina í notkun í vor, eins og við gerðum ráð fyrir í upphafi. Eins og staðan er núna er byggingin rúmlega fokheld. Eftir er að klára frágang úti, einangra þakið, rafmagnið er langt komið og pípulagnirnar eru að byrja. Uppsetning á vélum og tækjum hefst í þessum mánuði. Búið er að kaupa allan vélbúnað í stöðina. Við höfum átta mánuði til þess að setja búnaðinn upp og fá hann til þess að virka eins og honum er ætlað og sá tími ætti að duga. Þetta er svo sem ekki flókin bygging en hún er m.a. óvenjuleg að því leyti að hluti hennar er neðan sjávarmáls, það þurfti að sprengja klöppina undir húsinu sex metra niður fyrir sjávarmál og síðan var steypt 50 cm þykk botnplata,“ segir Haraldur.
Mikið framfaraspor
Með þessari nýju fráveitustöð verður stigið gríðarstórt framfaraspor í umhverfismálum á Akureyri. „Tilkoma stöðvarinnar þýðir að við getum uppfyllt reglugerð um grófstigshreinsun á fráveituvatni. Í stöðinni verða þriggja millimetra sigti sem taka allt efni sem er grófara en þrír millimetrar. Núna fer allt frárennsli á Akureyri út hér í næsta nágrenni en með tilkomu hreinsistöðvarinnar fer það í gegnum hana. Of mikið af föstu efni fer til sjávar en á því verður mikil breyting eftir að hreinsistöðin verður tekin í notkun. Það fasta efni sem til fellur við hreinsunina verður flutt á urðunarstað í Stekkjavík, norðan Blönduóss. Við áætlum að til falli að jafnaði um 50 kíló af föstu efni á sólarhring. Við rennum að vísu nokkuð blint í sjóinn með það en miðað við reynsluna frá höfuðborgarsvæðinu teljum við að þessi tala sé ekki langt frá lagi.“
En hvað er átt við með föstu efni? Haraldur segir að það sé allt á milli himins og jarðar, til dæmis dömubindi, eyrnapinnar og trefjaklútar, sem Haraldur segir allt of algengt að fólki hendi í salerni. Og það er algengara en ætla mætti að fólk missi jafnvel snjallsímana sína í klósettin og þar með verða þeir hluti af föstu efni sem hreinsistöðin kemur í veg fyrir að fari út í sjó.
Gert er ráð fyrir að stöðin verði mannlaus á nóttunni og um helgar en starfsfólk verða alltaf á bakvakt, eins og er í núverandi dælustöðvum í bænum. „Við eigum eftir að finna út hvernig við högum mönnun stöðvarinnar virka daga en þegar ekki er vaktmaður á staðnum munu tölvur gefa honum merki ef eitthvað kemur upp á,“ segir Haraldur. Hann segir að nýja hreinsistöðin breyti ekki starfsemi dælustöðvanna sem fyrir eru. „Nei, það verður engin breyting á þeim, eftir sem áður dæla þær öllu skólpi meðfram ströndinni hingað og héðan mun það síðan renna út að hreinsun lokinni.“
Um 400 metra löng útrásarlögn
Síðar í þessum mánuði er gert ráð fyrir að leggja út hina nýju útrásarlögn frá hreinsistöðinni. „Byrjað er að undirbúa þá aðgerð með því að grafa rás frá húsinu. Lögnin er klár út á Gáseyri og bíður þess að við drögum hana hingað inn eftir og leggjum hana út. Rörið er 390 metra langt og fer niður á 44 metra dýpi. Það er mikil kúnst að sökkva því á réttan hátt, hönnun á legu rörsins liggur fyrir og kafarar og skip hafa skoðað botninn gaumgæfilega. Við þurfum ekki að reka niður undirstöður fyrir rörið, á því eru sökkur til þess að halda því niðri, samtals 196 tonn að þyngd,“ segir Haraldur. „Við höfum ekki ákveðið dagsetninguna hvenær rörinu verður sökkt en það verður þó örugglega síðar í þessum mánuði. Við reiknum með að sú aðgerð taki um einn sólarhring og til þess þurfum við hæglætis veður,“ segir Haraldur Jósefsson.
Opnunartími Norðurorku
Opið virka daga kl. 8-12 og 13-15