28. apr 2014

Framkvæmdir við fráveitu gengu vel

Framkvæmdir við breytingar á tengingum í fráveitu gengu vel og voru skólpdælur gangsettar um kl. 15:00.

Sá flöskuháls er í fráveitukerfinu að lögn milli dælustöðvar í Hafnarstræti (rétt norðan við Höepfner) og dælustöðvar við Torfunef (rétt sunnan Hofs) er ekki nægjanlega víð og annar ekki álagstoppum.  Þetta hefur valdið því að stöðin í Hafnarstræti hefur farið á yfirfall á álagstímum með þeim afleiðingum að skólp fer um yfirfallið og út í Pollinn.  Inn á þessa lögn milli nefndra dælustöðva hefur einnig verið dælt skólpi úr miðbænum sem hefur enn aukið álag á lögnina og þar með aukið hættuna á því að skólpdælustöðin í Hafnarstræti fari á yfirfall.

Með framkvæmdinni núna hefur skólp úr hluta miðbæjarins verið tekið beint inn í dælustöðina við Torfunef og er vonast til að með þeirri aðgerð létti það mikið á lögninni norðan úr dælustöðinni við Hafnarstræti að það minnki verulega líkurnar á því að sú stöð fari á yfirfall og þar með að Pollurinn mengist af skólpi á umræddum stað.

Þessi aðgerð er tiltölulega einföld en ef hún dugar ekki til er ljóst að svera þarf upp umrædda lögn frá Hafnarstræti að Torfunefi.  Verði það nauðsynlegt er ráðgert að fara í þá framkvæmd þegar á þessu ári. 

Auk framangreindrar ráðstöfunar verður einnig unnið að því að minnka svonefnt ofanvatn í fráveitukerfinu.  Áður fyrr var fráveitukerfið lagt einfalt eins og það er nefnt, þ.e. í sömu lögnina fer skólp og ofanvatn, þ.e. rigningarvatn og snjóbráðnun.  Í dag eru ný kerfi lögð tvöföld þannig að ofanvatn er tekið í sérstaka lögn og það þá hægt að leiða út í ár, læki eða beint út í sjó á sérstakrar mengunarhættu.  Dæmi um mikið ofanvatn sem fer í skólpkerfið er vatn af stórum bílastæðum (t.d. við Sjúkrahúsið á Akureyri) sem um leið eykur til muna álagið á fráveitukerfið.  Með þetta í huga er m.a. unnið að skoðun á því að minnka álagði á dælustöðina í Hafnarstræti með því að ná þessu ofanvatni framhjá fráveitunni í sérstaka ofanvatnslögn.

Rétt er að taka fram að þó hér sé lýst almennum aðgerðum sem bætt geta fráveitukerfið töluvert er áfram unnið að undirbúningi að byggingu hreinsistöðvar í samræmi við áætlun þar að lútandi.

Framkvæmdir við breytingar á tengingum í fráveitu - Torfunef apríl 2014

 Frá framkvæmdum við Torfunef