10. mar 2014

Fráveitumál

Fráveitumál

Eins og fram er komið tók Norðurorka við rekstri fráveitu Akureyrarbæjar um síðastliðin áramót.  Í samningi Norðurorku hf. og Akureyrarbæjar er gert ráð fyrir ákveðnum aðlögunartíma þar sem yfirfærsla sem þessi tekur alltaf ákveðinn tíma.  Frá áramótum hefur markvisst verið unnið að yfirfærslunni.  Starfsmaður Akureyrarbæjar sem lét af störfum fyrir aldurs sakir hjá bænum var ráðinn tímabundið til Norðurorku auk þess sem auglýst var starf verkefnastjóra við fráveituna.  Þá er hafinn undirbúningur við að færa fráveituna inn í gæðakerfi Norðurorku og munum við eiga samstarf við Orkuveitu Reykjavíkur þar að lútandi enda búa þeir að mikilli reynslu af sambærilegri yfirfærslu.

Búið er að ganga frá ráðningu Haraldar Jósefssonar í stöðu verkefnastjóra á framkvæmdasviði.  Megin verkefni hans mun vera umsjón með rekstri og áframhaldandi uppbyggingu fráveitunnar. Hann mun hefja störf hjá félaginu í apríl.  Haraldur er byggingarfræðingur að mennt og hefur starfað meðal annars hjá ÍAV og Ístak.

Norðurorka lítur á það sem mikilvægt tækifæri að bæta fráveitu Akureyrarbæjar við rekstur annarra veitna félagsins.  Verkefnið er stórt en um leið gefandi þar sem mikilvægt er að vinna ákveðið að úrlausn þessa brýna hagsmunamáls Akureyringa. Þó ekki sé neitt hættuástand í fráveitumálum er ljóst að það er mikilvægt fyrir ímynd bæjarins til langrar framtíðar að næstu stóru skrefin verði tekin í uppbyggingu fráveitunnar með byggingu hreinsistöðvar og útrásar.

Langtímaverkefnið er síðan að bæta úr þeim ágöllum sem sannanlega eru á núverandi kerfi og er það er von okkar að það muni okkur takast farsællega á næstu árum.