Stjórn Norðurorku hefur ákveðið að fara í stefnumótun varðandi „græn“ umhverfismál. Fyrirtækið Environice með Stefán Gíslason umhverfisfræðing í broddi fylkingar hefur tekið að sér að leiða stefnumótunarferlið. Norðurorka skrifaði á dögunum undir loftslagsyfirlýsingu Festu ásamt 103 íslenskum fyrirtækjum og var hún lögð fram á Parísarráðstefnunni nú í nóvember. Norðurorka hefur á undanförnum árum komið að fjölda umhverfisvænna verkefna. Hér má nefna stofnun Vistorku sem hefur það að leiðarljósi að stuðla að aukinni umhverfisvernd m.a. að gera samfélagið á Akureyri kolefnishlutlaust. Norðurorka er stærsti hluthafinn í Orkey ehf. sem framleiðir lífdísel sem unnin er úr notaðri steikingarolíu. Einnig kom Norðurorka á fót Metanframleiðslu úr gömlum sorphaugum á Glerárdal en þar má framleiða vistvænt eldsneyti fyrir 600 smábíla á ári auk þess sem Norðurorka er hluthafi í GPO ehf. sem framleiðir olíu úr baggaplasti með meiru.
Í bílaflota Norðurorku eru fimm metanbílar og einn rafmagnsbíll. Fyrirtækið er að hefja framkvæmdir á næstunni við byggingu skólphreinsistöðvar við Sandgerðisbót sem mun verða til bóta fyrir umhverfið. Einnig má geta þess að Norðurorka hefur í gegnum árin plantað trjám í um 55-60 hektara lands sem nú er skógi vaxið. Norðurorka mun láta reikna út kolefnisspor fyrirtækisins sem hluta af verkefninu.
Framundan er fjölda spennandi tækifæra í þessum málaflokki og því nauðsynlegt að fyrirtækið móti sér stefnu í umhverfismálum til lengri tíma litið.
Opnunartími Norðurorku
Opið virka daga kl. 8-12 og 13-15