Íslendingar eru lánsamir að hafa aðgang að þeirri einstöku auðlind sem jarðhitavatn er. Um 90% af heitavatnsnotkuninni er vegna húshitunar en afganginn notum við til annarra hluta eins og að fara í sturtu, þrífa eða vaska upp.
Undanfarin ár hefur verið stöðugur vöxtur í heitavatnsnotkun Akureyringa og á árunum 2000-2020 tvöfaldaðist orkuþörf hitaveitunnar. Um tíma var staðan þannig að hitaveitan þurfti að vera á fullum afköstum yfir köldustu vetrardagana þannig að lítið mátti útaf bregða í rekstrinum. Notkunin hefur aukist jafnt og þétt, töluvert umfram fjölgun íbúa á svæðinu, sem segir okkur að hver og einn einstaklingur er nú að nota meira heitt vatn en áður.
Á undanförnum árum hefur verið unnið að því að auka orkumátt hitaveitukerfis Norðurorku m.a. með viðbótarborun á Hjalteyri árið 2018 en auk þess var farið í að leggja nýja aðveituæð frá Hjalteyri til Akureyrar, til viðbótar við eldri aðveituæð, en flutningsgeta hennar var orðin takmarkandi þáttur í nýtingu vinnslusvæðisins. Hér má sjá frekari upplýsingar um lagningu nýrrar Hjalteyrarlagnar.
Með tilkomu nýrrar Hjalteyrarlagnar hefur flutningsgeta hitaveitukerfisins til Akureyrar aukist um allt að 60 l/s á síðustu tveimur árum. Eins og verða vill við svo stóra framkvæmd, það að leggja nýja 500 mm svera hitaveitulögn 20 km leið sem soðin er saman með 16 m millibili, fylgja henni hvimleiðar afleiðingar. Í þessu tilfelli, mögulega suðugjall úr samsuðunum og meðburður úr jarðhitakerfinum sem hrífst af stað þegar meira flæði kemur frá norðri inn í dreifikerfi bæjarins. Undanfarið hefur starfsfólk unnið að útskolun úr kerfinu þar sem því er við komið og mun svo verða meðan þörf er á. (Sjá eldri frétt hér á síðunni)
Þrátt fyrir að staða hitaveitukerfisins sé vissulega betri núna en undanfarin ár vill Norðurorka minna á mikilvægi þess að gengið sé vel um heitavatnsauðlindina og komið sé í veg fyrir sóun á henni.
Heita vatnið er ein helsta auðlind Íslendinga - Nýtum það vel
Opnunartími Norðurorku
Opið virka daga kl. 8-12 og 13-15