Undanfarin tvö ár hafa miklar framkvæmdir verið í gangi á vegum Norðurorku við að auka orkumátt hitaveitunnar, m.a. með lagningu nýrrar aðveituæðar frá Hjalteyri til Akureyrar, oft nefnd Hjalteyrarlögn. Í fyrsta áfanga verksins (árið 2018) var lögnin lögð innanbæjar á Akureyri og í öðrum áfanga frá Hjalteyri að Ósi (árið 2019).
Undanfarnar vikur hefur verið unnið að þriðja áfanganum sem felur í sér lagningu frá bænum Ósi að Skjaldavík. Lögnin liggur skammt vestan Skipalóns og við þverun Hörgár fer hún í gegnum hólma sem þar er í ánni. Ferðalagið undir ána var því tvískipt með áfangastað í hólmanum. Í gær, 7. apríl, var lögnin lögð í gegnum nyrðri álinn í Hörgá en áður, eða fyrir tæpum tveimur vikum síðan, hafði hún verið lögð í gegnum syðri álinn. Vegna veðurs var ekki hægt að ráðast á nyrðri álinn fyrr en nú en síðustu tvær vikurnar hefur íslenska veðurfarið svo sannarlega minnt á sig með bæði asahláku og stórhríð.
Verktakinn, sem er Steypustöð Dalvíkur, er þessa stundina að ganga frá sökkunum og fylla upp í þennan stóra skurð sem þurfti til að hægt væri að leggja lögnina undir ána. Þar sem skurðurinn er dýpstur er hann um 5 m djúpur, jarðvegur sendinn og malarkenndur þannig að bakkarnir runnu mikið niður og úr varð afar breiður skurður. Notaðar voru 4 dælur af stærðinni 6-10“ til að dæla því sem lak í gegnum jarðveginn úr skurðinum. Slíkt er nauðsynlegt bæði til að reyna að minnka hrunið/sigið úr skurðköntunum sem og til að koma rörinu niður í sökkurnar því flotkrafturinn í rörinu er mikill.
Eins og áður segir er verið að ganga frá og reiknað með að Hörgá verði farin að renna um báða álana á morgun, skírdag 9. apríl.
Hér að neðan má sjá myndir sem Auðunn Níelsson tók við Hörgá í gær.
Opnunartími Norðurorku
Opið virka daga kl. 8-12 og 13-15