25. nóv 2022

Hugum að hitaveitunni, er nóg til?

Í síðustu viku tók Norðurorka þátt í opnum fundi sem Samorka bauð uppá þar sem málefni hitaveitna, staða jarðhitaauðlindarinnar og forðamál voru í brennidepli. Yfirskrift fundarins var „Hugum að hitaveitunni, er nóg til?“ en þar kom m.a. fram að þó svo að orkuskipti til upphitunar húsa séu mjög langt komin þá er ekki sömu sögu að segja um orkuöflunina. Undanfarin ár hefur notkun á heitu vatni aukist mikið og umfram allar spár þar um.

Hjalti Steinn Gunnarsson, fagstjóri hitaveitu Norðurorku, flutti erindi á fundinum. Þar stiklaði hann á stóru um sögu jarðhitaleitar og vinnslu í Eyjafirði undanfarna áratugi ásamt því að segja frá þeim áskorunum sem blasa við í rekstri hitaveitunnar eftir að orkumáttur hennar staðnaði þegar lítið magn af sjó mældist í jarðhitavatninu á Hjalteyri. Verið er að rannsaka hvernig hægt er að haga vinnslunni á sjálfbæran hátt í framtíðinni en ljóst er að vinnslan verður ekki aukin þaðan fyrr en niðurstöður liggja fyrir. Tímabundið verður bætt við önnur kerfi en mikilvægt er að hafa í huga að það er ekki sjálfbært til lengri tíma. Á fundinum deildu einnig Veitur og Selfossveitur sinni reynslu.

Hægt er að hlusta á þennan flotta fund í heild sinni hér að neðan en erindi Hjalta Steins frá Norðurorku hefst á mínútu 29.50.

Hugum að hitaveitunni, er nóg til?

 

Munum að ganga vel um jarðhitaauðlindina, berum virðingu fyrir heita vatninu, sem er ein af okkar dýrmætustu auðlindum, og sóum því ekki.