16. ágú 2013

Hvaðan kemur kalda vatnið

Tíðindamaður Norðurorkuvefsins var á ferðalagi í sumarfríinu á eyjunni Tenerife.

Tíðindamaður Norðurorkuvefsins var á ferðalagi í sumarfríinu á eyjunni Tenerife.  Eyjan er fögur og margt að sjá og skoða en fyrir landann virkar hún verulega þurr og sólin nánast alltaf á lofti og því lítið um úrkomu.  Eðlilega vöknuðu því spurningar um hvaðan allt það vatn sem íbúarnir og sólþyrstir ferðalangar nota kemur.

Þegar rýnt er í heimildir á netinu kemur í ljós að stærstur hluti vatnsins er grunnvatn og er það sótt með borunum í jörðu.  Þrátt fyrir að lítið virðist rigna á eyjunni, sem er jú reyndin, þá er það svo að rakinn í lofti er mikill og hann þéttist í andrúmsloftinu í háum hlíðum og fjöllum eyjunnar.  Maður verður mjög var við þennan raka í loftinu þó maður átti sig ef til vill ekki á þéttingu hans í hlíðum fjallanna fyrr en maður sér furuskógana og gróðurinn sem er í 1.000 - 2.000 metra hæð yfir sjó.  Eins og víða var furuskógurinn í hættu um tíma vegna ofnýtingar en með markvissum aðgerðum hefur tekist að vernda og enduheimta mikið af honum.

Þrátt fyrir ofangreind gæði eyjaskeggja þá hefur síðari árin ekki eingöngu verið hægt að treysta á grunnvatnið og því hafa verið byggð tvö stór vatnshreinsiver þar sem sjór er hreinsaður þannig að út kemur nothæft neysluvatn fyrir íbúana, landbúnað og framleiðslufyrirtæki. Í dag framleiða þessi hreinsiver um 30.000m³ af vatni á degi hverjum sem er rúmlega tíundi hluti þess vatns sem notaður er á eyjunni.  Þessi leið til að nálgast neysluvatn er auðvitað kostnaðarsöm því hún kostar bæði orku og heilmikinn rekstur þar sem sjórinn fer í gegnum sérstakar síur þar sem steinefnin, salt og önnur efni eru hreinsuð frá.

Til samanburðar þá er um 80% af því vatni sem Akureyringar nota sjálfrennandi lindarvatn sem kemur úr lindum á Glerárdal og í Hlíðarfjalli en um 20% er vatn sem við dælum úr borholum á Vöglum í Hörgárdal.  Hollt er að minnast þess að stór hluti af drykkjarvatni íbúa og ferðamanna á Tenerife er flöskuvatn keypt í næstu búð, meðan við getum skrúfað frá krananum og fengið tært lindarvatnið beint í glasið.

El Teide hæsta fjall Tenerife og þar með Spánar

El Teide hæsta fjall Tenerife og þar með Spánar 3.718 metrar á hæð

Furuskógarnir í hlíðum Tenerife

Fururskógurinn í hlíðum Tenerife