Þema dagsins í ár er hið gríðarlega vandamál á heimsvísu sem er skortur á fullnægjandi aðgengi að salernisaðstöðu. Í dag hafa 2,4 milljarðar manna ekki fullnægjandi aðgang og hjá 1 milljarði er varla nokkur aðstaða til staðar og vandamálið sérstaklega ákallandi. Frekari upplýsingar um daginn í ár, og hvað við getum gert til að taka þátt, má finna hér á heimasíðu Sameinuðu þjóðanna, en það eru undirsamtök þeirra UN Water sem bera ábyrgð á alþjóðlegri skipulagningu dagsins.
Hér á Íslandi er ástandið auðvitað allt annað og mun betra. Við hjá Norðurorku viljum nota daginn til að vekja athygli almennings á mikilvægi þess að fara vel með fráveitukerfin okkar og sérstaklega passa upp á hvað látið er í klósettið.
Fráveitan er mikilvæg þjónusta sem fáir vilja vera án. Norðurorka sinnir þessu mikilvæga hlutverki á Akureyri. Í ferli er að byggja hreinsistöð fyrir fráveitu á Akureyri og taka í notkun um mitt ár 2018. Í framhaldi af hreinsun verður skolpinu dælt út á um 40 metra dýpi, um 500 metra vegalengd þar sem hagstæðir straumar taka við og náttúran brýtur niður efnaleifar.
Mikilvægt er að allir noti klósettið rétt og hendi ekki í það hlutum/efnum sem eiga ekki að fara í fráveituna. Norðurorka hefur birt auglýsingu til þessa minna á þetta og hana má sjá hér. Velkomið er að nota auglýsinguna sem leiðbeiningar t.d. við almenningssalerni, á vinnustöðum, veitingastöðum o.s.frv.
Hér má nefna að fita er erfið við að eiga, hún sest á rörveggi og safnar upp smáhlutum og myndar stíflur. Látum steikingarfeiti, feitar sósur, majónes, smjör og annað slíkt ekki í vaskinn eða klósettið og renna þaðan í fráveituna. Komum fitunni frekar í lífrænan úrgang eða til endurvinnslu ef við á og þar með í endurnotkun. Öll fita er slæm fyrir fráveitukerfið og búnað þess. Stíflar leiðslur og hefur slæm áhrif á dælur og annan slíkan búnað.
Látum ekki eldhúsbréf, blautþurrkur og trefjaklúta í klósettið
Látum ekki bómullarvörur eins og dömubindi, tíðatappa og eyrnapinna í klósettið
Látum ekki smokka í klósettið
Hjá Orkuveitu Reykjavíkur hafa starfsmenn sem dæmi fundið moppur, þvottapoka, falskar tennur, greiðslukort og síma í dælubúnaði.
Njótum þess að ástandið er gott hjá okkur í þessum heimshluta, mest snúa okkar vandamál að okkur sjálfum og hvernig við umgöngumst fráveituna.
Opnunartími Norðurorku
Opið virka daga kl. 8-12 og 13-15